Ný skýrsla Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um endurbætur á íslenska skattkerfinu
Fyrir réttu ári birtist fyrri skýrsla Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) um endurbætur á íslenska skattkerfinu sem unnin var að beiðni fjármálaráðherra undir yfirskriftinni Improving the Equity and Revenue Productivity of the Icelandic Tax System. Í henni var farið yfir tekjuöflunarkerfi ríkissjóðs og gerð ítarleg grein fyrir kostum og göllum þess, auk þess sem gerðar voru tillögur um breytingar til að auka skilvirkni og til að auka tekjur ríkissjóðs ef þess væri talin þörf. Nokkrar þeirra tillagna hafa þegar verið lögfestar.
Fljótlega eftir útkomu fyrri skýrslu AGS varð ljóst að nauðsyn væri á frekari skoðun og útfærslu á einstökum þáttum hennar, meðal annars í tengslum við vinnu starfshóps um endurskoðun íslenska skattkerfisins. Í ljósi þess óskaði fjármálaráðherra eftir frekari vinnu frá sérfræðingum AGS á grundvelli fyrri skýrslu, jafnframt því að gerð yrði sérstök rannsókn á skattlagning náttúruauðlinda. Sú vinna fór fram í mars og apríl 2011 í samráði við fjölmarga opinbera aðila, hagsmunasamtök og fræðimenn og liggur nú fyrir ný skýrsla frá AGS undir heitinu Advancing Tax Reform and the Taxation of Natural Resources.
Skýrslan inniheldur yfirgripsmikla og vandaða umfjöllun um einstaka þætti íslenska skattkerfisins ásamt tillögum um umbætur af ýmsu tagi, auk ábendinga um tekjuöflun ef til þyrfti að koma. Hér skulu sérstaklega nefndir eftirtaldir þættir:
- Tekjuskattur fyrirtækja – meðferð afskrifaðra krafna, arðs, vaxta og skattalegar ívilnanir
- Skattlagning launa – reiknuð laun og arður í fámennum félögum, tekjuskattur einstaklinga, tryggingagjöld, lífeyrisiðgjöld
- Fjármagnstekjuskattur og eignaskattar - hreyfanlegir og minni hreyfanlegir tekjustofnar
- Virðisaukaskattur og vörugjöld – fjöldi þrepa, gildissvið
- Skattlagning fjármálaþjónustu – alþjóðleg þróun, nýr skattur í stað virðisaukaskatts
- Umhverfisskattar – aukin áhersla
- Skattlagning náttúruauðlinda – stefnumótun til framtíðar
Rétt er að vekja sérstaka athygli á umfjöllun um síðasttalda þáttinn, þ.e. skattlagningu náttúruauðlinda, sem skipar veigamikinn sess í skýrslunni. Um þann þátt segir meðal annars að helsta keppikefli íslenskra stjórnvalda eigi að vera að afla aukinna verðmæta af notkun vatns- og jarðvarmaorku landsins. Skilvirkni og jafnræði í skattlagningu til náinnar framtíðar sé meðal þess sem hafa beri að leiðarljósi.
Báðar skýrslur AGS er að finna á vef fjármálaráðuneytisins á ensku.
- Advancing Tax Reform and the Taxation of Natural Resources – June 2011
- Improving the Equity and Revenue Productivity of the Icelandic Tax System – June 2010
Allar frekari upplýsingar um innihald nýju skýrslunnar veita Maríanna Jónasdóttir og Sigurður Guðmundsson á tekju- og skattaskrifstofu fjármálaráðuneytisins.