Hoppa yfir valmynd
20. júní 2011 Utanríkisráðuneytið

Rýnifundi um orkumál lokið

Rýnifundi um orkumál sem eru í 15. kafla samningaviðræðna við Evrópusambandið lauk í Brussel í dag. Á fundinum báru sérfræðingar Íslands og ESB saman löggjöf í þessum samningskafla sem fellur að hluta undir EES-samninginn. Fyrir íslenska hópnum fór Bryndís Kjartansdóttir, formaður samningahópsins.

Regluverk Evrópusambandsins á sviði orkumála fjallar um samkeppnismál og ríkisstyrki tengda kolavinnslu, innri orkumarkaðinn (frjálsræði í viðskiptum með raforku og gas), aukna notkun endurnýjanlegrar orku, bætta orkunýtingu, neyðarstjórnun og skuldbindingar um neyðarolíubirgðir, kjarnorku, kjarnöryggi og geislavarnir.

Á grundvelli EES-samningsins hefur verið samið um fjórar sérlausnir fyrir Ísland á sviði orkumála og telur samningahópurinn rétt að halda þeim komi til aðildar. Þær varða m.a. orkunýtni bygginga og reglur um innri markað fyrir raforku. Á rýnifundinum vöktu fulltrúar Íslands einnig athygli á sérstöðu Íslands í orkumálum sem kalli á sérlausnir fyrir Ísland við upptöku einstakra gerða. Þetta eigi m.a. við um hlutfall endurnýjanlegrar orku, sem er mun hærra en í aðildarríkjum ESB. Þá er samsetning raforkuvinnslu og umfang stóriðju frábrugðin ríkjum ESB. Einnig var rætt um kröfur ESB um lágmarksbirgðir af olíu og vakin athygli á því að kjarnorka er ekki notuð hér á landi. Jafnframt var gerð grein fyrir banni við varanlegu framsali opinberra aðila á vatns- og jarðhitaréttindum og lögð áhersla á að slíkt bann haldi gildi sínu. Sá skilningur var undirstrikaður að aðild að Evrópusambandinu hafi ekki nein áhrif á eignarhald og nýtingu orkuauðlinda.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta