Rýnivinnu lokið
Í dag lauk rýnivinnu Íslands og Evrópusambandsins sem staðið hefur yfir frá nóvember síðastliðnum. Við rýnivinnunna hafa sérfræðingar frá Íslandi og Evrópusambandinu borið saman löggjöf í þeim 33 efnisköflum sem aðildarviðræðurnar munu snúast um. Fyrir liggur að Ísland hefur þegar tekið upp Evrópulöggjöf að öllu eða mestu leyti í 21 kafla í gegnum þátttöku sína í EES-samstarfinu. Á öðrum málefnasviðum sem eru utan EES, til dæmis í sjávarútvegi, landbúnaði, byggða- og atvinnumálum, sem og í þeim samningskafla sem lýtur að evrusamstarfinu, hefur vinnan leitt í ljós hvað á milli ber í löggjöfinni.
Rýnivinnan gekk vel og unnið er að því að afmarka enn frekar viðfangsefni samningaviðræðna Íslands og ESB í einstökum köflum. Í rýnivinnunni hafa Evrópusambandsríkin öðlast betri skilning á aðstæðum á Íslandi og þeirri sérstöðu sem helgast meðal annars af legu landsins, fámenni og strjálbýli. Fulltrúar framkvæmdastjórnar ESB hafa lokið lofsorði á fagmennsku íslenskra sérfræðinga á rýnifundunum en í þeim hafa tekið þátt formenn samningahópa og fulltrúar úr stjórnsýslunni, ásamt fulltrúum hlutaðeigandi hagsmunasamtaka. Að loknum hverjum rýnifundi hafa greinargerðir samningahópa um viðkomandi málefnasvið verið birtar á heimasíðu utanríkisráðuneytisins og á esb.utn.is, auk annarra skjala, og þannig hefur verið tryggt að samningaferlið sé opið og gegnsætt.
Nú fara í hönd eiginlegar samningaviðræður Íslands og Evrópusambandsins. Þær munu skiptast upp eftir samningsköflum og verða fyrstu kaflarnir opnaðir á ríkjaráðstefnu í Brussel mánudaginn 27. júní nk. Kaflarnir sem verða opnaðir eru allir hluti af EES-samningnum, en þeir innihalda löggjöf um opinber útboð (5. kafli), upplýsingatækni og fjölmiðla (10. kafli), vísindi og rannsóknir (25. kafli), og um menntun og menningu (26. kafli). Utanríkisráðherra mun ávarpa ríkjaráðstefnuna fyrir Íslands hönd en fulltrúar ESB verða Janos Martonyi, utanríkisráðherra Ungverjalands sem fer með formennsku í ráðherraráði sambandsins, og Stefan Fule, framkvæmdastjóri stækkunarmála í framkvæmdastjórn ESB.