Aðild að öðrum áfanga loftferðasamnings ESB og Bandaríkjanna
Ísland, Noregur, Evrópusambandið og Bandaríkin hafa í Osló í dag undirritað samning um aðild Íslands og Noregs að öðrum áfanga loftferðasamnings Evrópusambandsins og Bandaríkjanna.
Evrópusambandið og Bandaríkin gerðu í apríl 2007 með sér loftferðasamning sem miðar að því að ná í áföngum fram fullu samræmi í beitingu samkeppnisreglna beggja vegna Atlantsála. Ísland og Noregur gerðust aðilar að þessum samningi í desember 2009 og tók hann gildi í upphafi árs 2010.
Í samræmi við áform samningsaðila var viðræðum um næsta áfanga haldið áfram og lauk með gerð annars samnings í mars 2010. Ísland og Noregur hafa með undirritun samningsins í dag einnig öðlast aðild að þessum áfanga. Hér er um mikið hagsmunamál að ræða fyrir flugrekendur í þessum löndum sem standa með þessu móti jafnfætis öðrum flugrekendum í Evrópu. Helstu áherslur í þessum áfanga snerust um aukinn markaðsaðgang, fjárfestingartækifæri og umhverfismál. Þær helstu eru fólgnar í eftirfarandi:
- Ákvæði eru um aukna samvinnu varðandi öryggi, flugvernd og umhverfisvernd
- Svigrúm til fjárfestinga og markaðsaðgangs er aukið, þ. á m. er gert ráð fyrir að gagnkvæmum heimildum flugrekanda til flugs milli fimm áfangastaða innan hvorrar blokkar til þriðju ríkja án viðkomu í heimaríkinu (sjöundu réttindi).
- Ákvæði er um eignarhald flugrekenda frá þriðju ríkjum auk aðgangs evrópskra flugrekenda að útboðum á vegum yfirvalda í Bandaríkjunum o.fl.
- Sameiginlegri nefnd samningsaðila (Joint Committee) er ætlað aukið hlutverk við frekari þróun samningsins og allar meginbreytingar á honum verða teknar með ákvörðunum á vettvangi hennar.
Samninginn undirrituðu fyrir hönd Bandaríkjanna Barry B. White sendiherra Bandaríkjanna í Noregi, fyrir hönd ráðherraráðs Evrópusambandsins Mate Gergely flugmálastjóri, Ungverjalandi, fyrir hönd Noregs frú Magnhild Meltveit Kleppa samgönguráðherra og fyrir Íslands hönd Kristján Andri Stefánsson sendiherra, aðalsamningamaður í loftferðamálum.