OECD birtir skýrslu um Ísland
Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) kynnti í dag skýrsluna Economic Survey um þróun efnahagsmála á Íslandi. Skýrslur af þessu tagi eru gefnar út á 18-24 mánaða fresti fyrir hvert og eitt aðildarríki OECD og var Ísland síðast til umfjöllunar árið 2009.
Í skýrslunni er sérstaklega lögð áhersla á fjögur atriði. Í fyrsta lagi endurreisn fjármálakerfisins og nauðsyn endurskipulagningar skulda fyrirtækja. Í öðru lagi er fjallað um opinber fjármál og mikilvægi þess að viðhalda sjálfbærni í fjármálum ríkis og sveitarfélaga til lengri tíma. Í þriðja lagi er rætt um atvinnuleysi og hvernig best sé hægt að stuðla að endurkomu fólks á vinnumarkað. Loks er fiskveiðistjórnunarkerfið til umfjöllunar, en skýrsluhöfundar hvetja til áframhaldandi sjálfbærni og skilvirkni í kerfinu.