Sólin er komin í hástöðu ... og hin efnahagslega sól hækkar jafnt og örugglega!
Það er mikilvægt að vekja athygli á því sem vel er gert og horfir til framfara. Alla virka daga frá 31. janúar til 21. júní þegar sólin var komin í hástöðu birti iðnaðarráðuneytið eina jákvæða frétt á dag undir heitinu Hækkandi sól – alls 96 fréttir.
Og sannarlega hefur hin efnahagslega sól verið að hækka jafnt og þétt. Í nýrri skýrslu OECD (Efnahags- og framfarastofnunarinnar) er reiknað með að hagvöxtur á árinu 2012 verði 3% og verðbólga verði áfram lág. Atvinnuleysi hefur lækkað jafnt og þétt og í nýlegri könnun kemur fram að bjartsýni er að aukast meðal Íslendinga.
Iðnaðarráðuneytið fer með málefni er varða nýsköpun, orkumál og ferðamál og í þeim geirum eru alla daga að vinnast sigrar - stórir og smáir – eins og glögglega hefur komið fram í jákvæðu fréttunum.
Það á að auka okkur bjartsýni og trú að fylgjast með góðum árangri þeirra á Dórukoti á Ísafirði sem framleiða vettlingahlífar og pollasokka fyrir yngstu börnin, Nox Medical sem finnur upp og framleiðir svefngreiningartæki fyrir heimsmarkað, Maxímús Músíkús sem kennir börnum um allan heim tónfræði, uppbyggingu á ævintýralegri vetrarferðamennsku á Tröllaskaga og tímamóta sæbjúgnaeldi á Eyrarbakka en það ku vera endalaus eftirspurn eftir sæbjúgum í Kína! Það eru jákvæðar sögur að eiga sér stað alla daga út um allt land.
Hin efnahagslega sól er stöðugt að hækka á lofti - og við treystum því að hin eina sanna sól verði gjöful á geisla sína í sumar.