Norræn heimsókn
Norrænir blaðamenn heimsóttu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið í morgun en þeir eru hér á ferð á vegum Nordisk Journalistcenter. Tilgangur ferðalagsins er ekki síst að kynna sér áhrif kreppu og uppgjörs á fjölmiðla, samfélag, íbúana, stjórnmálin og fjármálageirann. Í ráðuneytinu fengu blaðamennirnir almenna fræðslu um stjórnun sjávarútvegsmála og þær hugmyndir sem eru um breytingar á því kerfi. Á myndinni sem tekin er við ráðuneytið eru hinir erlendu gestir ásamt leiðsögumönnum á Íslandi þeim Sigrúnu Stefánsdóttur og Danfríði Skarphéðinsdóttur sem og starfsmönnum ráðuneytisins þeim Kristjáni Helgasyni og Níels Árna Lund lengst til hægri.