Vefsíða um kynbætur á bleikju.
Nr. 27/2011
Vefsíða um kynbætur á bleikju.
Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra opnaði nú í vikunni nýja vefsíðu um kynbætur á bleikju, bleikjueldi.holar.is. Verkefnið er starfrækt við Háskólann á Hólum. Háskólinn á Hólum hefur annast kynbætur á bleikju fyrir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið undanfarin tuttugu ár. Árangur af kynbótunum hefur verið mjög góður og samsvarar því að vaxtarhraði hafi aukist um 3,5% ári. Auk þess hefur tekist að draga úr ótímabærum kynþroska, sem áður var vandamál í bleikjueldi.
Árangurinn af kynbótunum hefur skipt sköpum fyrir þróun bleikjueldis hér á landi, en nú eru framleidd um 3500 tonn af bleikju á ári að verðmæti 2,5-3,0 milljarðar. Íslendingar eru stærstu framleiðendur á bleikju í heiminum, en vaxandi samkeppni gætir, einkum frá Svíum. Markaðssetning og sala á bleikju hefur gengið vel og þess vegna ráðgera íslenskir fiskeldismenn að tvöfalda framleiðslu á bleikju fyrir árið 2020. Góður árangur kynbótaverkefnisins skiptir sköpum fyrir þessa framleiðsluaukningu.
Kynbætur á bleikju hófust fyrir um 20 árum þegar fyrst var farið að huga að bleikjueldi af krafti hér á landi. Hólaskóla var falin umsjón kynbótaverkefnisins sem frá upphafi hefur verið styrkt af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu. Kynbótastöðin á Hólum hefur séð bleikjuframleiðendum fyrir kynbættum hrognum og nemur framleiðslan nú um 470 lítrum á ári sem dugar til framleiðslu á um 5 milljón fiskum. Kynbættir hafa verið tveir meginstofnar, annar dökkur á roð og hinn ljós. Gert er ráð fyrir að hrognaframleiðsla kynbótastöðvarinnar muni aukast á næstu árum í samræmi við þarfir atvinnugreinarinnar. Ráðuneytið og skólinn hafa nýlega gert með sér samning um að Háskólinn á Hólum muni halda áfram kynbótum á bleikju.
Frá upphafi hafa meginmarkmið kynbótanna verið að auka vaxtarhraða fisksins og draga úr ótímabærum kynþroska. Með kynbótunum hefur tekist að meira en tvöfalda vöxt fiskanna á undaförnum tuttugu árum. Gert er ráð fyrir að kynbæturnar muni skila hliðstæðum árangri í framtíðinni. Einnig hefur tekist að draga úr ótímabærum kynþroska, sem áður dró verulega úr verðmæti framleiðslunnar. Ráðgert er að bæta við fleiri þáttum í kynbótum í framtíðinni og velja m.a. fyrir eiginleikum sem tengjast auknum gæðum.
Frekari upplýsingar um kynbótaverkefnið og árangur af kynbótum má finna á heimasíðunni bleikjueldi.holar.is. Nánari upplýsingar veitir: Helgi Thorarensen s. 868 2053, [email protected].