Í tilefni af skýrslu Ríkisendurskoðunar
Forsætisráðuneytið fagnar því að fram komi með skýrum hætti í skýrslu Ríkisendurskoðunar um greiðslur ráðuneyta til starfsmanna félagsvísindasviðs Háskóla Íslands að Ríkisendurskoðun hefur enga ástæðu til þess að ætla að upplýsingum hafi vísvitandi verið leynt með svari forsætisráðherra. Jafnframt kemur fram með skýrum hætti í skýrslunni að beiðni forsætisnefndar Alþingis var víðtækari en upphafleg fyrirspurn Alþingis.
Forsætisráðuneytið telur nauðsynlegt að koma á framfæri eftirfarandi skýringum og athugasemdum við efni skýrslunnar:
-
Forsætisráðuneytið fagnar því að fram komi með skýrum hætti á bls. 4 og 12 í skýrslu Ríkisendurskoðunar að Ríkisendurskoðun hefur enga ástæðu til þess að ætla að upplýsingum hafi vísvitandi verið leynt með svari forsætisráðherra.
-
Beiðni forsætisnefndar Alþingis, sem liggur til grundvallar skýrslu Ríkisendurskoðunar, er ítarlegri en fyrirspurn þingmannsins til forsætisráðherra, þar sem ekki var hægt að lesa út úr fyrirspurninni að óskað væri upplýsinga um tímabundin störf eða nefndalaun.
-
Forsætisráðuneytið bendir á að fyrirspurnin var þrívegis prentuð upp og henni breytt, sem er mjög óvenjulegt og jók verulega hættu á að villur kæmu upp við vinnslu svarsins.
-
Forsætisráðuneytið fellst á að rétt hefði verið að setja fram í skriflegu svari fyrirvara um afmörkun svarsins varðandi félög, en telur að útilokað hefði verið að afla upplýsinga þar að lútandi innan þess frests sem gefinn er samkvæmt lögum til þess að svara skriflegum fyrirspurnum. Þörf var á flókinni upplýsingaöflun frá utanaðkomandi aðilum og rannsókn sem ekki hefði verið unnt að vinna nema á mun lengri tíma.
-
Forsætisráðuneytið hafnar því að ráðuneyti innan Stjórnarráðs Íslands hafi ekki nægilega yfirsýn yfir aðkeypta þjónustu. Hins vegar fellst ráðuneytið á að fjármálaráðuneytið þurfi að setja samræmdar reglur um notkun launakerfisins.
-
Forsætisráðuneytið bendir á að 4. kafli skýrslunnar um viðbótarbeiðni forsætisnefndar Alþingis er í raun óháður því álitaefni hvort forsætisráðuneytið hafi svarað upphaflegri fyrirspurn með fullnægjandi hætti.
-
Forsætisráðuneytið vill, þrátt fyrir að í 4. kafla skýrslunnar um sé að ræða viðbótarupplýsingar óháðar upphaflegu svari ráðuneytisins, benda á að framsetning í töflu 4.1 og 4.2 um tímabundin störf og nefndalaun getur gefið villandi mynd. Ráðuneytið telur að þar séu í raun að hluta til tilteknar greiðslur sem séu utan beiðni forsætisnefndar Alþingis. Er þarna m.a. blandað saman við greiðslum til starfsmanna sem voru í 100% starfi í ráðuneytum og voru ekki starfsmenn félagsvísindasviðs Háskóla Íslands á sama tíma. Þá liggja til grundvallar töflunum greiðslur sem komu fram í skriflegu svari forsætisráðherra og eru því tvíteknar í skýrslunni, sem gerir tölulegan samanburð einnig flókinn. Mikilvægt er að taka tillit til þessa þar sem hér er um umtalsverðar fjárhæðir að ræða.
-
Forsætisráðuneytið telur mikilvægt að Alþingi og Stjórnarráðið eigi á næstu mánuðum samráð um breytt vinnubrögð við vinnslu fyrirspurna og svara við þeim.
-
Meðfylgjandi eru athugasemdir forsætisráðuneytisins í heild eins og þær voru sendar Ríkisendurskoðun fyrir útgáfu skýrslunnar.