Skuldabréfaútgáfa ríkissjóðs - aðdragandi, markmið og næstu skref
- Vefrit fjármálaráðuneytisins júní 2011 (PDF 67 KB)
Alþjóðleg skuldabréfaútgáfa ríkissjóðs þann 9. júní sl. markar mikilvægan áfanga í efnahagsáætlun Íslands.
Mikil eftirspurn fjárfesta rammar inn þann árangur sem hefur náðst til þessa við endurreisn efnahagslífsins. Sú staðreynd að Ísland er komið aftur á alþjóðlega skuldabréfamarkaði aðeins tveimur og hálfu ári eftir hrun hefur vakið mikla athygli erlendra fjölmiðla, fagtímarita, banka og fjárfesta, og er til marks um þann viðsnúning sem orðið hefur í efnahagsmálum á Íslandi.
Skuldabréfaútgáfan var að fjárhæð 1 milljarður Bandaríkjadala, jafngildi um 114 milljarðar króna. Skuldabréfin bera fasta vexti og eru gefin út til 5 ára á ávöxtunarkröfunni 4,993%. Kjörin jafngilda 3,20% álagi á vexti á millibankamarkaði. Heildareftirspurn fjárfesta nam um 2 milljörðum Bandaríkjadala. 85% útgáfunnar var seld til eignastýringarfyrirtækja, tryggingarfélaga og lífeyrissjóða. Bandarískir fagfjárfestar keyptu hátt í 70% útgáfunnar en evrópskir fjárfestar voru einnig atkvæðamiklir. Fjárfestingarbankarnir Barclays Capital, Citi og UBS Investment Bank höfðu umsjón með útgáfunni.
Aðdragandi og undirbúningur
Segja má að undirbúningur útgáfunnar hafi staðið yfir í langan tíma. Í framhaldi af efnahagsáfallinu og lækkuðu lánshæfismati Íslands mátti búast við að talsverð breyting yrði á hópi fjárfesta í alþjóðlegum útgáfum ríkissjóðs. Um mitt síðasta ár var hafist handa við að kortleggja fjárfestaumhverfið og meta hvaða hópar væru líklegir til að taka þátt í nýrri útgáfu. Haustið 2010 var byrjað að kynna með markvissum hætti stöðu ríkissjóðs og íslensks efnahagslífs fyrir bönkum og fjárfestum. Ársáætlun í lánamálum ríkisins var birt í lok sl. árs þar sem m.a. kom fram að stefnt yrði að endurfjármögnun erlendra skulda á árinu. Í framhaldinu var í fyrsta sinn birt stefna í lánamálum ríkisins til lengri tíma, þar sem fjallað er um hvernig staðið verði að skuldabréfaútgáfum, þ.á.m. á erlendum mörkuðum. Nýleg endurkaup erlendra skulda voru m.a. liður í undirbúningi þar sem fjárfestar líta það jákvæðum augum þegar útgefendur eru tilbúnir til að styðja við bréf sín á eftirmarkaði.
Allan þennan tíma hefur grannt verið fylgst með markaðsaðstæðum. Um leið og lánshæfismatsfyrirtækin þrjú staðfestu óbreyttar lánshæfiseinkunnir sínar í framhaldi af atkvæðagreiðslu um Icesave var lokahönd lögð á undirbúning. Í kynningarferð fyrir útgáfuna var ítarlega farið yfir stöðu mála á Íslandi með fulltrúum tæplega 90 fjárfesta í Bandaríkjunum og Evrópu. Mikil áhersla var lögð á að hitta sem flesta til skýra frá þróun efnahagsáætlunarinnar, fara yfir núverandi aðstæður í efnahagslífinu, helstu áskoranir og framtíðaráform, m.a. á sviði fjármögnunar. Um 100 fjárfestar tóku svo þátt í útgáfunni. Samsetning fjárfestahópsins og styrkleiki hans vekur vonir um frekari stuðning eftir því sem áframhaldandi jákvæð þróun verður í efnahagslífinu.
Tilgangur og markmið
Fjárhæðin sem aflað var að þessu sinni verður nýtt til endurgreiðslu erlendra skulda sem falla í gjalddaga árin 2011 og 2012 en fleiri markmið fólust í framkvæmd útgáfunnar en að afla lánsfjár.
Útgáfunni var ætlað að marka endurkomu ríkissjóðs á alþjóðlega markaði. Því var afar mikilvægt að vel tækist til, jafnt frá sjónarhóli ríkissjóðs sem og frá sjónarhóli fjárfesta því von er á fleiri útgáfum frá ríkissjóði á komandi árum. Þannig var m.a. stefnt að því að selja bréfin til fjölbreytts hóps langtímafjárfesta sem gæti stutt við Ísland í framtíðinni.
Eitt af markmiðum útgáfunnar var að setja viðmið (e. benchmark) fyrir framtíðarútgáfur ríkissjóðs og þar með fyrir aðra íslenska útgefendur. Sú staðreynd að ekki var til staðar útistandandi langtímaútgáfa á markaði olli ákveðnum erfiðleikum við verðlagningu nýju skuldabréfaútgáfunnar, jafnt fyrir fjárfesta og ríkissjóð. Útgáfustærð og þátttaka breiðs hóps fjárfesta skiptir því miklu máli varðandi setningu viðmiðs. Útgáfustærð hefur t.d. áhrif á áhuga fjárfesta til þátttöku. Í augum fjárfesta er lágmarksstærð viðmiðunarútgáfa fyrir nýmarkaðsríki 500 milljónir Bandaríkjadala en nær 1 milljarði Bandaríkjadala þegar kemur að þróaðari löndum. Stærri útgáfa eykur seljanleika á eftirmarkaði en eftirmarkaðsverð mun verða viðmiðið þegar kemur að verðlagningu næstu útgáfu. Verðþróun á eftirmarkaði skiptir því miklu máli fyrir framtíðarkjör ríkissjóðs. Því má segja að markaðssetning fyrir næstu útgáfu sé nú hafin.
Næstu skref
Markaðsaðstæður hafa verið afar viðkvæmar undanfarnar tvær vikur vegna óvissu sem tengist Grikklandi og þróun mála í Evrópu. Í raun lokaðist markaður fyrir nýjar útgáfur skömmu eftir útgáfu Íslands. Tímasetning hennar reyndist því afar hagstæð fyrir ríkissjóð. Ávöxtunarkrafa skuldabréfanna hefur lækkað lítillega á eftirmarkaði en það er öfugt við neikvæða verðþróun flestra annarra sambærilegra bréfa á sama tímabili. Líkt og fram kemur í „Stefnu í lánamálum ríkisins 2011-2014“ er stefnt að reglulegum skuldabréfaútgáfum á erlendum mörkuðum. Þar sem erlend fjármögnun er aðeins framkvæmd í þeim tilgangi að styrkja gjaldeyrisforða, verður næstu útgáfum varið til endurfjármögnunar á lánum frá AGS, Norðurlöndunum og Póllandi. Framtíðarstærð erlendra skulda mun taka mið af þeirri stærð gjaldeyrisforða sem talin verður nauðsynleg.
Nýafstaðin útgáfa er afar mikilvægur áfangi við endurreisn íslensks efnahagslífs. Aðgengi ríkissjóðs að erlendum mörkuðum er eitt af skilyrðum ýmissa aðgerða, t.d í áætlun um losun gjaldeyrishafta. Eins mun þetta aðgengi að mörkuðum skipta miklu máli fyrir aðra en ríkissjóð, því það liðkar fyrir erlendri fjármögnun annarra innlendra aðila sem á móti er mikilvægt til að liðka fyrir fjárfestingum í íslensku atvinnulífi.
Hér má sjá samsetningu fjárfestahópsins, eftir tegundum fjárfesta
Hér má sjá landfræðilega samsetningu fjárfestahópsins
Ábyrgð: Ráðuneytisstjóri
Umsjón: Rósa Björk Brynjólfsdóttir, fjölmiðlafulltrúi, [email protected]