Ákvörðun heildaraflamarks fiskveiðiárið 2011/12
Nr. 30/2011
Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur í dag tekið ákvörðun um heildarafla á næsta fiskveiðiári 2011/2012. Ákvörðunin byggir á ráðgjöf Hafrannsóknastofnunarinnar og er tekin að höfðu samráði við hagsmunaaðila.
Stofnunin kynnti ráðgjöf sína fyrir komandi fiskveiðiár á fundi í síðasta mánuði en hún er jafnframt gefin út í skýrslu stofnunarinnar nr. 159/2011.
Þar er fjallað um ástand nytjastofna sjávar og umhverfisþætti. Þar kemur fram að sjávarhiti hefur undanfarinn áratug verið yfir meðallagi og tölur benda til að svo verði áfram. Almennt stuðlar hærri sjávarhiti að meiri framleiðni á Íslandsmiðum.
Samhliða útgáfu aflamarks hefur ráðherra ákveðið að setja á fót starfshóp sem taki til athugunar notkun á flottrolli og áhrif þess á lífríki sjávar.
Hafrannsóknastofnunni verður falið að auka rannsóknir á mismunandi áhrifum veiðafæra með tilliti til lífríkis og orkunotkunar. Ennfremur verður því beint til stofunarinnar að kanna hrygningarstöðvar steinbíts og friðun þeirra.
Þorskur
Í ráðgjöf Hafrannsóknastofnunarinnar kemur fram að þorskstofninn er nú talinn stærri en verið hefur undanfarna tvo áratugi. Þar munar mjög um aukningu í stórþorski sem er yfir 80 sm og fjölgun í hrygningastofni sem nú er talinn 362 þúsund tonn, en það er vel ofan við varúðar- og hættumörk. Þá er hrygningarstofninn vel yfir tvöfaldri lágmarksstærð árganganna 1992-1994. Að mati vísindamanna Hafrannsóknastofnunarinnar hefur orðið mikill viðsnúningur á þorskstofninum frá því sem var fyrir aðeins fjórum árum þegar stærð stofnsins var í sögulegu lágmarki.
Að tillögu stofnunarinnar hefur ráðherra ákveðið að heildarafli þorsks fyrir árið 2011/2012 verði 177 þúsund tonn eða um 10% hærri, en er á yfirstandandi fiskveiðiári. Umrædd tala er í samræmi við aflareglu í þorski sem gilt hefur frá árinu 2009.
Ýsa
Heildarafli ýsu fyrir árið 2011/2012 er ákveðinn 45 þúsund, sem er 5 þúsund tonna lækkun frá fyrra ári. Árgangar ýsu frá 2008-2010 hafa verið mjög litlir eftir mjög gott gengi stofnsins árin næst þar á undan. Stofninn hefur minnkað undanfarin ár, en veruleg óvissa er þó um stærð stofnsins. Þannig benda mælingar frá síðastliðnu hausti til að stofninn sé mun stærri en fram kom í stofnmælingu í mars. Hafrannsóknastofnunin leggur til að heildarafli í ýsu verði 37 þúsund tonn, en á yfirstandandi fiskveiðiári er heimiluð veiði 50 þúsund tonna. Skýrist frávik frá ráðgjöf meðal annars af afla sem nauðsynlegt er að taka tillit til, svo veiðar annarra stofna geti gengið eðlilega fyrir sig.
Ufsi
Heildarafli ufsa fyrir árið 2011/2012 verður 52 þúsund tonn, sem er lítilsháttar aukning frá aflaheimildum fyrra árs. Meðalþyngd ufsa eftir aldri var lág 2005-2008, en hefur aukist og í samræmi við það hefur Hafrannsóknastofnunin lagt til aukningu sóknar í stofninn. Ákvörðun ráðherra um frávik frá ráðgjöf skýrist meðal annars af afla sem nauðsynlegt er að taka tillit til, svo veiðar annarra stofna geti gengið eðlilega fyrir sig.
Steinbítur
Í samræmi við ráðgjöf eru heimildir í steinbít lækkaðar talsvert eða úr 12 þúsund tonnum í 10,5 þúsund tonn. Samkvæmt stofnmati Hafrannsóknastofnunarinnar hefur veiðistofninn farið minnkandi frá árinu 2006. Sem fyrr verður hrygningarslóð steinbíts á Látragrunni friðuð á hrygningar- og klaktíma. Jafnframt hefur ráðherra falið Hafrannsóknastofnuninni að auka rannsóknir á hrygningarsvæðum og útbreiðslu steinbíts, m.a. með tilliti til þess hvort víðar þurfi að grípa til friðunar hrygningarstöðva.
Karfi
Aflaheimildum í karfa var skipt upp í heimildir í djúpkarfa og gullkarfa á síðasta ári og er þeirri skiptingu haldið. Að tillögu Hafrannsóknastofnunarinnar er ákveðið að heildarafli djúpkarfa verði 12 þúsund tonn sem er 2 þúsund tonna aukning frá fyrra ári og að sama skapi er lögð til og heimiluð aukning í gullkarfa úr 30 í 40 þúsund tonn.
Keila og langa
Stofnar keilu og löngu hafa verið í vexti síðustu ár og í báðum tilvikum er um að ræða aukningu heimilda í samræmi við ráðgjöf Hafrannsóknastofnunarinnar. Ákvörðun um lönguafla er 9 þúsund tonn og keiluafla 7 þúsund tonn.
Grálúða
Grálúða við Austur-Grænland, Færeyjar og Ísland er talin af sama stofni, en ekki hafa náðst samningar milli þjóðanna um stofninn. Í ljósi þess ákveður ráðherra að heildaraflamark Íslands í grálúðu verði óbreytt eða 13 þúsund tonn.
Íslensk sumargotssíld
Ákvörðunin nú er 5 þúsund tonna upphafsafli, en áður hafði verið úthlutað 5 þúsund tonnum á fiskveiðiárið 2010/11 vegna meðafla við makrílveiðar.
Aðrar tegundir óbreyttar
Í langlúru, þykkvalúru, skötusel, sandkola, skarkola og skrápflúru er aflamark óbreytt frá fyrra ári.
Tafla
Ákvörðun um leyfilegan heildarafla fiskveiðiárið 1. september 2011 til 31. ágúst 2012
Tegund | Ráðgjöf 2010/2011 | Ákvörðun 2010/2011 |
Ráðgjöf 2011/2012 | Ákvörðun 2011/2012 |
Þorskur | 160.000 | 160.000 | 177.000 | 177.000 |
Gullkarfi | 30.000 | 30.000 | 40.000 | 40.000 |
Djúpkarfi | 10.000 | 10.000 | 10,000 | 12.000 |
Ýsa | 45.000 | 50.000 | 37.000 | 45.000 |
Ufsi | 40.000 | 50.000 | 45.000 | 52.000 |
Grálúða | 5.000 | 13.000 | 12.000 | 13.000 |
Steinbítur | 8.500 | 12.000 | 7.500 | 10.500 |
Skrápflúra | 200 | 200 | 200 | 200 |
Skarkoli | 6.500 | 6.500 | 6.500 | 6.500 |
Sandkoli | 500 | 500 | 500 | 500 |
Keila | 6.000 | 6.000 | 6.900 | 7.000 |
Langa | 7.000 | 7.000 | 8.800 | 9.000 |
Þykkvalúra | 1.800 | 1.800 | 1.800 | 1.800 |
Skötuselur | 2.500 | 2.500 | 2.500 | 2.500 |
Langlúra | 1.300 | 1.300 | 1.100 | 1.300 |
Humar | 2.100 | 2.100 | 2.000 | 2.100 |
Ísl. síld (upphafsafli) | -- | -- | 5.000 | 5.000 |