Hoppa yfir valmynd
5. júlí 2011 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra kynnir sér stöðu mála í Palestínu

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, átti í dag fundi með háttsettum yfirmönnum Arababandalagsins í Kaíró í Egyptalandi þar sem farið verður yfir trúnaðarupplýsingar um stöðu Palestínu.  

Síðar í dag fer utanríkisráðherra áleiðis til Gaza, og heldur á fimmtudaginn til Jórdaníu þar sem hann ræðir við utanríkisráðherra landsins, Nasser Judeh. Hann heldur svo til Ramallah í Palestínu, þar sem palestínska heimastjórnin situr og mun þar eiga viðræður við helstu ráðamenn.

Í ferðinni mun utanríkisráðherra eiga viðræður við Palestínumenn og helstu nágrannaþjóðir þeirra um stöðu Palestínu, en forystumenn heimastjórnarinnar í Palestínu hafa lýst yfir að á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna verði stefnt að því að samþykkt verði tillaga um stuðning við frjálsa Palestínu á grundvelli landamæranna frá 1967, og að nýtt ríki Palestínu verði tekið inn í Sameinuðu þjóðirnar.

„Tilgangur fararinnar er að kynnast af eigin raun hinni flóknu stöðu sem nú er uppi, ekki síst í tengslum við myndun nýrrar stjórnar Palestínumanna, og ræða af hreinskilni með hvaða hætti þjóðir vinveittar Palestínumönnum geti stutt þá í baráttu sinni fyrir sjálfstæði,” sagði utanríkisráðherra.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta