Óskað eftir umsögnum um drög að landsskipulagsstefnu
Umhverfisráðuneytið hefur sent til umsagnar drög að reglugerð um landsskipulagsstefnu en henni er ætlað að setja fram leiðarljós um nýtingu lands og landgæða sem tryggir heildarhagsmuni við gerð skipulagsáætlana. Markmiðið með slíkri stefnu er að stuðla að sjálfbærri þróun og skilvirkri áætlanagerð.
Í landsskipulagsstefnu eru samþættar áætlanir opinberra aðila um samgöngur, byggðamál, náttúruvernd, orkunýtingu og aðra málaflokka sem varða landnotkun. Skulu sveitarfélög taka mið af landsskipulagsstefnu við gerð skipulagsáætlana og breytinga á þeim, og eftir því sem við á, samræma þær landsskipulagsstefnu innan fjögurra ára frá samþykkt hennar.
Vinnuhópinn sem vann tillögur að drögum að reglugerð um landsskipulagsstefnu skipuðu Stefán Thors forstjóri Skipulagsstofnunar, Birna Björk Árnadóttir og Ingimundur Stefánsson frá Skipulagsstofnun, Guðjón Bragason og Ólöf Guðný Valdimarsdóttir frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Danfríður Skarphéðinsdóttir frá umhverfisráðuneyti. Með hópnum starfaði einnig Ásdís Hlökk Theodórsdóttir, skipulagsfræðingur og adjúnkt við Háskólann í Reykjavík.
Umsögnum um drögin skal skila eigi síðar en 15. ágúst næstkomandi til umhverfisráðuneytisins.