Samkomulag um pólitískt samráð og samstarfsnefnd Íslands og Palestínu
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra og Dr. Riad Al Malki, utanríkisráðherra í heimastjórn Palestínumanna, undirrituðu í Ramallah í gærkvöld samkomulag um samráð íslenskra stjórnvalda og palestínsku heimastjórnarinnar. Samkomulagið fjallar um pólitískt samráð sem byggir á stofnun samstarfsnefndar milli Íslands og Palestínu, og samstarfi á sviði efnahagsmála, þróunarmála, menningarmála, viðskipta og menntunar.
Utanríkisráðherra lýsti því jafnframt yfir að íslensk stjórnvöld myndu styðja tillögu um sjálfstæði Palestínumanna þegar hún kæmi fram hjá Sameinuðu þjóðunum. Ráðherra afhenti palestínska utanríkisráðherranum yfirlýsingu um að stöðu fulltrúaskrifstofu Palestínu gagnvart Íslandi yrði breytt í sendiskrifstofu.
Á fundi sínum í Ramallah á Vesturbakkanum ræddu ráðherrarnir friðarumleitanir á milli Palestínumanna og Ísraela og nýlegt samkomulag Palestínumanna um sameiginlega stjórn Fatah og Hamas samtakanna. Utanríkisráðherra lagði áherslu á að Palestínumenn næðu saman um myndun þjóðstjórnar, þar sem ósætti græfi undan sameiningarmætti palestínsku þjóðarinnar og gerði mörgum vinveittum þjóðum erfiðara að láta stuðning sinn í ljós.
Össur sagði þá kröfu sína ófrávíkjanlega að einangrun Ísraela á Gaza yrði aflétt þegar í stað, hann hefði séð hræðilegar afleiðingar hennar með eigin augum í heimsókn sinni til Gaza á miðvikudag.