Hoppa yfir valmynd
8. júlí 2011 Forsætisráðuneytið

Skipun nefndar um stefnumörkun ríkisins í auðlindamálum

Forsætisráðherra hefur í dag skipað nefnd um stefnumörkun ríkisins í auðlindamálum.
Þann 31. maí sl. samþykkti ríkisstjórn Íslands sameiginlega tillögu forsætisráðherra og fjármálaráðherra um að skipa nefnd til að setja fram tillögur um almenna stefnu sem lögð verði til grundvallar gjaldtöku fyrir nýtingu á auðlindum þjóðarinnar og annarra takmarkaðra gæða, umsýslu þessara réttinda og meðferð tekna sem hún skapar, sbr. samþykktir um stofnun Auðlindasjóðs í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og áætluninni Ísland 2020.
Nefndina skipa:

Arnar Guðmundsson, formaður, tilnefndur af forsætisráðherra
Indriði H. Þorláksson, tilnefndur af fjármálaráðherra
Svanfríður Jónasdóttir, tilnefnd af efnahags- og viðskiptaráðherra
Gunnar Tryggvason, tilnefndur af iðnaðarráðherra
Bjarni Harðarson, tilnefndur af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra
Álfheiður Ingadóttir, tilnefnd af umhverfisráðherra.

Nefndin mun hafa fasta starfsmenn úr röðum ráðuneyta og skal við störf sín jafnframt leita til ríkisstofnana á hlutaðeigandi sviði.

Hlutverk nefndarinnar er í fyrsta lagi að setja fram almenna og heildstæða stefnumörkun varðandi ráðstöfun nýtingarréttar á auðlindum og ráðstöfun ýmissa réttinda sem ríkið ræður yfir, svo sem nýtingarréttar á þjóðlendum, vatnsafli, jarðvarma, ferskvatni, fiskistofnum, fjarskiptatíðnum, námum og kolvetnum í jörðu, auk losunarheimilda, en hún þarf jafnframt að vera þannig að hægt sé að útfæra hana með sértækari hætti fyrir einstök málefnasvið. Við vinnu sína skal nefndin vinna út frá þeim forsendum að nýtingarrétti auðlinda í eigu þjóðarinnar skuli aldrei úthlutað nema tímabundið, gegn gjaldi og með gegnsæjum hætti á grundvelli jafnræðissjónarmiða.

Í öðru lagi er nefndinni ætlað að móta almenna stefnumörkun um ráðstöfun þess arðs sem hlýst af nýtingu auðlindanna og hinna takmörkuðu gæða. Skal stefnumörkunin byggja á að sú ráðstöfun sé vel skilgreind, sýnileg og skipt með réttlátum hætti.

Í þriðja lagi skal nefndin marka stefnu um umsýslu framangreindra réttinda og arðs af nýtingu þeirra. Er nefndinni ætlað að greina og leggja mat á hvort færa eigi á eina hendi innan stjórnsýslunnar, og þá eftir atvikum í ráðuneyti eða stofnun, forræði yfir og ráðstöfun þeirra auðlinda og réttinda sem hér um ræðir og fallið gætu undir Auðlindasjóð.

Nefndin skal skila skýrslu til ríkisstjórnarinnar fyrir 1. desember 2011.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta