Utanríkisráðherra ræðir friðarumleitanir í Mið-Austurlöndum við jórdanska ráðamenn
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra ræddi friðarumleitanir í Mið-Austurlöndum, stuðning við Palestínumenn í baráttu þeirra fyrir viðurkenningu á sjálfstæði og tvihliða samskipti Íslands og Jórdaníu á fundi með Nasser Judeh, utanríkisráðherra landsins í Amman í gær.
Utanríkisráðherra ítrekaði stuðning íslenskra stjórnvalda við sjálfstæði Palestínu, og þess að einangrun Gaza, sem hann heimsótti á miðvikudag, yrði aflétt þegar í stað.
Ráðherrarnir lögðu áherslu á góð samskipti Íslands og Jórdaníu, m.a. þegar kemur að því hvernig vinveittar þjóðir geti lagt Palestínumönnum lið. Palestínska heimastjórnin stefnir að því að á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í haust verði samþykkt tillaga um stuðning við frjálsa Palestínu á grundvelli landamæranna frá 1967, og að nýtt ríki Palestínu verði tekið inn í Sameinuðu þjóðirnar.
Judeh fór yfir hlutverk Jórdana í sáttaumleitunum í Mið-Austurlöndum en þeir hafa gegnt mikilvægu hlutverki þar. Tæpar tvær milljónir Palestínumanna eru búsettar í Jórdaníu, þar af rúmlega 300.000 í flóttamannabúðum. Ráðherrarnir voru sammála um mikilvægi þess að alþjóðasamfélagið héldi áfram tilraunum sínum til að tryggja frið, en fundur fulltrúa Sameinuðu þjóðanna, Evrópusambandsins, Bandaríkjanna og Rússlands, sem vinna að friðarumleitunum verður haldinn í næstu viku.
Þá fundaði utanríkisráðherra með Hashem Ben Al Hussein, Jórdaníuprins. Ræddu þeir friðarferlið og þátt Jórdana í því, svo og tvíhliða samskipti ríkjanna. Lýsti prinsinn áhuga á að auka viðskipti ríkjanna og samvinnu á sviði endurnýjanlegra orkugjafa. Utanríkisráðherra bað Jórdani um að gleyma ekki jarðhitanum þegar þeir þróuðu endurnýjanlega orkugjafa og tækjust á við orkuskort í landinu. Bæði prinsinn og Judeh lýstu áhuga á samvinnu við Íslendinga um það.