Hoppa yfir valmynd
10. júlí 2011 Utanríkisráðuneytið

Abbas þakkar fyrir stuðning Íslands

OS-og-Abbas
OS-og-Abbas

Heimsókn Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra til Palestínu lauk nú um helgina með fundum með Mahmoud Abbas, forseta Palestínu, Saeb Erekat aðalsamningamanni og Yasser Abed Rabbo aðalritara PLO, frelsissamtaka Palestínu.

Utanríkisráðherra ítrekaði stuðning Íslendinga við tillögur sem til stendur að leggja fram á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í haust um sjálfstæði Palestínu miðað við landamærin frá 1967 og um aðild Palestínu að Sameinuðu þjóðunum.

Þá ræddi hann við Abbas um með hvaða hætti Íslendingar gætu best stutt við Palestínumenn. Abbas þakkaði fyrir stuðning Íslendinga og sagði hann mikils metinn. Hann fór yfir stöðuna í viðræðunum um nýtt upphaf friðarviðræðna og lýsti Palestínumenn reiðubúna á grundvelli yfirlýsinga Barack Obama Bandaríkjaforseta og evrópskra leiðtoga frá í maí. Hins vegar virtist sem ísraelskir ráðamenn hefðu ekki áhuga á slíkum samningaviðræðum. Reynt yrði til þrautar á næstu dögum og vikum hvort hægt væri að fá Ísraelsmenn til friðarviðræðna að nýju. Að öðrum kosti neyddust Palestínumenn til að fara aðrar leiðir.

Saeb Erekat kom til fundarins beint af fundum í Bandaríkjunum með fulltrúum Obama forseta þar sem rætt var meðal annars um fund kvartettsins svokallaða sem verður í vikunni. Í kvartettnum eru Bandaríkin, Evrópusambandið, Rússland og Sameinuðu þjóðirnar.

Utanríkisráðherra lýsti þeirri skoðun að nauðsynlegt væri fyrir Palestínumenn að koma sameinaðir fram og ná saman um myndun þjóðstjórnar. Klofningur í röðum Palestínumanna væri mikill veikleiki. Abbas sagði unnið hart að því að koma slíkri stjórn á í samvinnu Fatah og Hamas hreyfinganna. Hann myndi halda til funda í Egyptalandi um það á næstu dögum. Hann kvaðst jafnframt reiðubúinn til að senda utanríkisráðherra sinn, Riad al Malki, til Íslands til að ráðgast um næstu skref í stuðningi Íslands við málefni Palestínu.

Að loknum fundunum heimsótti utanríkisráðherra bæinn Qalqilya á Vesturbakkanum en hann er umlukinn múrnum sem Ísraelsmenn hafa reist á þrjá vegu. Leið til bæjarins frá höfuðstað palestínskra stjórnvalda, Ramallah, sem ætti að taka 45 mínútur, tók þrjá tíma í akstri þar sem sneiða þurfti hjá múrnum og akbrautum sem einungis voru fyrir ísraelska bíla. Í Qalqilya átti ráðherra fundi með bæjarstjóranum og yfirmönnum öryggissveita bæjarins.

Í ferð sinni kynnti ráðherra sér ástandið í Austur-Jerúsalem sem er hertekið svæði og hvernig Ísraelsmenn hafa reist landnemabyggðir víða um borgina. Starfsmenn Sameinuðu þjóðanna sýndu ráðherra hvernig múrinn liggur þvers og kruss um Jerúsalemborg og þjarmar að byggðum Palestínumanna.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta