Hoppa yfir valmynd
14. júlí 2011 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Aukinn áhugi Evrópubúa á umhverfismálum

Unglingar við sjóinn.
Unglingar við sjóinn.

Umhverfið er persónulega mikilvægt fyrir yfir 90% íbúa Evrópusambandsríkjanna. Þá er stór meirihluti Evrópubúa sammála um að betri nýting náttúruauðlinda og aukin umhverfisvernd geti örvað hagvöxt innan sambandsins.

Þetta eru niðurstöður nýrrar könnunar sem Framkvæmdastjórn ESB lét gera. Segir í frétt sambandsins af könnuninni að sterkur áhugi almennings á umhverfismálum endurspeglist ekki eingöngu í orði heldur einnig á borði. Þannig sögðust tveir af hverjum þremur vera með sorpflokkun heimavið, yfir helmingur þeirra er að reyna að draga úr orkunotkun sinni, fjórir af hverjum tíu leitast við að draga úr notkun á einnota varningi og æ fleiri Evrópubúar eru farnir að velja umhverfisvænni samgöngumáta en áður.

Þá sýnir könnunin aukinn skilning meðal Evrópubúa á því álagi sem er á náttúruauðlindum. Átta af hverjum tíu vilja að fyrirtæki leggi meira á sig til að fara betur með náttúruauðlindir, meira en sjö af hverjum tíu vilja að stjórnvöld landa sinna geri meira til að stuðla að þessu og tæplega sjö af hverjum tíu telja að borgararnir sjálfir geti tekið sig á í þessum efnum. 

Þrátt fyrir efnahagslega niðursveiflu telja 89% Evrópubúa að setja ætti aukið fjármagn í umhverfisvernd og 81% telja nauðsynlegt að fá umhverfislöggjöf frá Evrópusambandinu í því skyni að vernda umhverfið.

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta