Hækkun olíuverðs kallar á langtímaaðgerðir
- Skýrsla starfshóps um möguleg viðbrögð stjórnvalda vegna hækkandi olíuverðs (PDF 632 KB), 14. júlí 2011
Helstu atriði:
- Hækkun olíuverðs er langtímavandamál sem ekki verður leyst með skammtímaaðgerðum.
- Stjórnvöld þurfa að móta stefnu sem hefur það að markmiði að draga úr áhættu af olíuskorti og hækkandi eldsneytisverði.
- Tekjur ríkissjóðs sem eyrnamerktar eru samgönguframkvæmdum eru langt í frá nægar til að standa undir vexti og viðhaldi samgöngukerfisins.
Á fundi ríkisstjórnar Íslands þann 8. júlí kynnti fjármálaráðherra lokadrög skýrslu nefnar sem hann skipaði til þess að fara yfir möguleg viðbrögð stjórnvalda vegna hækkandi verðs á olíu. Skýrslan hefur nú verið gefin út og er hún aðgengileg á vef fjármálaráðuneytisins.
Einn stærsti þáttur í vinnu nefndarinnar hefur verið að greina þá þróun sem verður á olíuverði til lengri tíma. Eins og rakið er í skýrslunni þá er það mat nefndarinnar að verð á olíu verði framvegis hátt þó að verðsveiflur geti valdið tímabundinni lækkun. Til lengri tíma litið mun því verð á olíu hækka. Af þeim sökum leggur nefndin ekki til að ráðist verði í skammtímaaðgerðir eins og t.d. að lækka álögur á olíu. Margt kemur þar til, en rétt er að leggja áherslu á fjögur veigamikil atriði:
a. Álögur hins opinbera valda ekki hærra olíuverði. Orsökin er fyrst og fremst ört hækkandi heimsmarkaðsverð á olíu en einnig óhagstæð gengisþróun. Svo dæmi sé tekið hefði 20 kr. lækkun á álagningu hins opinbera á bensíni í desember 2010 verið horfin í byrjun apríl.
b. Þær tekjur sem ríkissjóður hefur fengið af vörugjaldi á eldsneyti og eru eyrnamerktar samgönguframkvæmdum eru langt í frá nægar til að standa undir vexti og viðhaldi samgöngukerfisins. Uppsafnaður halli Vegagerðarinnar á 6 ára tímabili er nærri 14 mlja. kr. Núverandi gjaldkerfi stendur því ekki undir samgöngukerfinu.
c. Álögur hins opinbera á olíu á Íslandi teljast ekki háar í samanburði við hin Norðurlöndin og olíuverð hér á landi er einna lægst í Vestur-Evrópu. Viðbrögð annarra ríkja við hækkandi heimsmarkaðsverði á olíu hafa ekki verið þau að lækka álögur nema í undantekningartilfellum.
d. Alþjóðastofnanir hafa hvatt ríki heims til að móta stefnu sem hefur að markmiði að draga úr áhættu af olíuskorti og hækkandi eldsneytisverði. Út frá þessum forsendum hefur nefndin einbeint sér að því að benda á lausnir sem eiga að vinda ofan af núverandi stöðu í samgöngum á Íslandi.
Líkt og aðrar þjóðir þarf Ísland að bregðast við síhækkandi olíuverði með því að draga úr vægi jarðefnaeldsneytis í samgöngum. Ef mat nefndarinnar um síhækkandi olíuverð reynist vera rétt verður að eiga sér stað veruleg umbreyting á skipulagi og uppbyggingu á samgöngukerfi landsins.
Í skýrslunni er gerð grein fyrir ýmsum tillögum að mögulegum leiðum fyrir stjórnvöld að fara til þess að bregðast við hækkandi olíuverð.
Reykjavík, 15. júlí 2011