Hoppa yfir valmynd
19. júlí 2011 Innviðaráðuneytið

Könnun á leiguíbúðum sveitarfélaga

Leiguíbúðir í eigu sveitarfélaga voru 4.656 árið 2010 og hafði þá fjölgað um 69 frá fyrra ári. Eftirspurn eftir leiguhúsnæði hefur aukist, íbúðum sem standa auðar hefur fækkað umtalsvert og æ fleiri sveitarfélög greiða nú sérstakar húsaleigubætur. Þetta er meðal niðurstaðna úr nýrri könnun Varasjóðs húsnæðismála. 

Könnunin var gerð að ósk velferðarráðuneytisins til þess að afla upplýsinga um stöðu leiguíbúðakerfis sveitarfélaganna við lok árs 2010 en sambærilegar kannanir hafa verið gerðar frá árinu 2004. Spurningalistar voru sendir öllum 76 sveitarfélögum landsins. Svör bárust frá 65 þeirra en í þeim sveitarfélögum bjuggu þá um 97,5% íbúa landsins.

Í könnuninni var meðal annars spurt um mat á framboði og eftirspurn eftir leiguhúsnæði í viðkomandi sveitarfélagi. Af 61 sveitarfélagi sem svaraði spurningunni töldu 27 þeirra að jafnvægi væri á markaðnum, 26 að skortur væri á leiguhúsnæði en átta sveitarfélög töldu offramboð á því. Miðað við könnun frá árinu 2009 hefur þeim sveitarfélögum fjölgað sem telja að skortur sé á leiguhúsnæði.

Árið 2010 voru 43 leiguíbúðir á vegum sveitarfélaga sem höfðu staðið auðar í sex mánuði eða lengur og hafði fækkað um sjö frá árinu 2009. Leiguíbúðir sem höfðu staðið auðar í eitt ár eða lengur voru 12 og hafði fækkað um fimm frá árinu 2009. Sé horft aftur til ársins 2004 hefur dregið verulega úr því að leiguíbúðir á vegum sveitarfélaga standi auðar. 

Sveitarfélög hafa í vaxandi mæli tekið upp greiðslur sérstakra húsaleigubóta til þeirra leigjenda sinna sem búa við erfiðastar aðstæður. Nærri öll stærri sveitarfélög á suðvesturhluta landsins, frá Sveitarfélaginu Árborg til Borgarbyggðar, greiða sérstakar húsaleigubætur og stór hluti fjölmennari sveitarfélaga á landsbyggðinni utan þess svæðis. Sveitarfélög sem greiða sérstakar húsaleigubætur áttu alls tæplega 3.900 allra íbúða íslenskra sveitarfélaga, eða 83,3% þeirra þegar könnunin var gerð.

Spurst var fyrir um hvort sveitarfélög eigi í rekstrarvanda vegna leiguíbúða. Af 76 sveitarfélögum töldu 23 sig eiga við vanda að stríða en þau voru 16 árið 2009 sem töldu sig í þeim sporum.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta