Reglugerð um nýtingu afla og aukaafurða
Nr. 37/2011
Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur gefið út reglugerð sem skyldar útgerðir til að koma með allan afla að landi, þ.m.t. lifur, hausa, hryggi og afskurð samkvæmt því sem hér segir.:
Við gildistöku reglugerðarinnar 1. september næstkomandi taka gildi ákvæði sem skylda útgerðir til að koma með að landi alla lifur sem til fellur. Skip sem vinna afla um borð fá þó árs aðlögun að þessu ákvæði, eða til 1. september 2012. Þá er við hrognkelsaveiðar hér eftir skylt að koma með öll hrognkelsi að landi.
Skipum sem vinna síld um borð skylt að koma með hausa af íslenskri sumargotssíld að landi líkt og verið hefur við makrílveiðar vinnsluskipa. Þá verður jafnframt skylda að koma með afskurð af karfaflökum líkt og verið hefur með bolfisk.
Frá og með 1. febrúar 2012 er skipum sem vinna afla um borð skylt að koma með 50% af öllum þorsk-, karfa- og grálúðuhausum að landi. Frá og með 1. september 2012 verður skylt að koma með alla hausa og hryggi sem til falla um borð í vinnsluskipum að landi.
Reglugerðin nú er sett í framhaldi af skýrslu sem unnin var af starfshópi ráðuneytisins og ber heitið Bætt nýting bolfisks. Þar voru gerðar tillögur um aðgerðir í þá veru sem nú hafa verið festar í reglugerð.Sjá nánar: Bætt nýting bolfisks og Reglugerð um nýtingu afla.