Hoppa yfir valmynd
20. júlí 2011 Matvælaráðuneytið

Undrun lýst á útnefningu bandaríska viðskiptaráðuneytisins á Íslandi samkvæmt svonefndu Pelly-ákvæði

Nr. 36/2011

Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, lýsir yfir undrun sinni á útnefningu bandaríska viðskiptaráðuneytisins á Íslandi samkvæmt svonefndu Pelly-ákvæði (e. Pelly Amendment Certification) vegna hvalveiða Íslendinga. Í útnefningarbréfi ráðuneytisins til Bandaríkjaforseta er mælt með því að gripið verði til tiltekinna diplómatískra aðgerða gagnvart Íslandi vegna hvalveiða hér við land. Eftir útnefningu samkvæmt Pelly-ákvæðinu hefur Bandaríkjaforseti 60 daga frest til að meta stöðuna og tilkynna Bandaríkjaþingi um hvort og þá til hvaða aðgerða hann grípi.

Hvalveiðar Íslendinga eru byggðar á traustum vísindalegum grunni og hafið er yfir allan vafa að þær eru sjálfbærar. Til marks um það er að árlegur kvóti Íslands af hrefnu er 216 dýr úr um 70.000 dýra stofni og árlegur kvóti af langreyði er 154 dýr úr um 20.000 dýra stofni. Veiðarnar eru enn fremur fyllilega löglegar og viðskipti með hvalaafurðir eru í samræmi við alþjóðlegar samningsskuldbindingar Íslands. Til grundvallar hvalveiðum hér við land liggur ályktun Alþingis frá 10. mars 1999 en þar var lýst yfir skýrum stuðningi við hvalveiðar í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar.

Bandarísk stjórnvöld hafa einkum gagnrýnt langreyðarveiðar Íslendinga með vísan til þess að tegundin sé í útrýmingarhættu. Þessi fullyrðing fær ekki staðist enda byggist hún ekki á vísindalegum grundvelli. Stofn langreyðar á Norður-Atlantshafi er í mjög góðu ástandi og er alfarið ótengdur stofni sömu tegundar í Suðurhöfum sem er í bágu ásigkomulagi.

Bandarísk stjórnvöld eru ekki sjálfum sér samkvæm þegar þau gagnrýna langreyðarveiðar Íslendinga annars vegar en óska eftir stuðningi Íslands og annarra aðildarríkja Alþjóðahvalveiðiráðsins við kvóta sinn af norðhval við Alaska hins vegar. Tekið skal fram að Ísland hefur stutt umræddar hvalveiðar Bandaríkjanna enda eru þær sjálfbærar. Hins vegar liggur fyrir að veiðar Íslendinga á langreyði eru ekki síður sjálfbærar en veiðar Bandaríkjamanna á norðhval.

Þess ber að geta að bandarísk stjórnvöld hafa reglulega útnefnt Japan og Noreg samkvæmt Pelly-ákvæðinu, Japan vegna hvalveiða í vísindaskyni en Noreg bæði vegna vísindaveiða og atvinnuveiða. Ísland hefur einu sinni áður verið útnefnt samkvæmt Pelly-ákvæðinu, árið 2004 vegna upptöku vísindaveiða á hrefnu. Ekki hefur verið gripið til neinna viðskiptaþvingana í þessum tilvikum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta