Álagning opinberra gjalda fyrir árið 2011
Álagning opinberra gjalda á einstaklinga og þá sem stunda atvinnurekstur í eigin nafni fyrir árið 2011 liggur nú fyrir. Um er að ræða endanlega álagningu á tekjuskatti, fjármagnstekjuskatti og útsvari á tekjur ársins 2010, en meginhluti álagningarinnar hefur þegar verið innheimtur í formi staðgreiðslu í fyrra eða fyrirframgreiðslu í ár. Í álagningunni eru ákvarðaðar greiðslur barnabóta og vaxtabóta. Frekara talnaefni um álagningu skatta á einstaklinga og ákvörðun barna- og vaxtabóta fyrir árið 2011 verður fljótlega að finna á vefsíðu ríkisskattstjóra (www.rsk.is).
Helstu niðurstöður álagningarinnar nú eru eftirfarandi:
- Heildarfjöldi framteljenda við álagningu árið 2011 er 260.764. Þeim fækkar annað árið í röð, nú um 672 eða 0,3%. Fækkun framteljenda er minni í ár en var á fyrra ári en flestir voru framteljendur við álagningu 2009, 267.494 og hefur þeim því fækkað um rúmlega 6.700 síðan þá.
- Tekjuskatts- og útsvarsstofn landsmanna árið 2010 nam 812,4 milljörðum króna og hafði dregist saman um 0,5% frá fyrra ári. Skattstofnsins var aflað af rúmlega 237 þúsund manns og hafði fjölgað um 0,6% í þeim hópi og var orðinn næstum því jafn fjölmennur og við álagningu 2009.
- Samanlögð álagning almenns tekjuskatts og útsvars nemur 200,9 milljörðum króna og hækkar um 1,4% frá fyrra ári.
- Almennur tekjuskattur sem nam 100,6 milljörðum króna var lagður á rúmlega 151 þúsund framteljendur. Af þeirri upphæð fóru 9,4 milljarðar til að greiða útsvar 98 þúsund framteljenda að hluta eða öllu leyti og 445 m.kr. til að greiða fjármagnstekjuskatt rúmlega 6 þúsund framteljenda að hluta eða öllu leyti. Nú greiða 64% þeirra sem höfðu jákvæðan tekjuskatts- og útsvarsstofn tekjuskatt til ríkissjóðs. Þetta hlutfall hefur ekki verið lægra síðan 2002.
- Nú er í fyrsta sinn lagður á tekjuskattur í þremur þrepum. Alls greiða 133 þúsund framteljendur skatt í miðþrepi, eða 88% þeirra sem greiða tekjuskatt. Viðbótarálagning í miðþrepi nam 9,9 milljörðum umfram tekjuskatt í fyrsta þrepi. Tekjuskatt í efsta þrepi greiða 9.500 framteljendur, samtals 2,1 milljarða í tekjuskatt umfram það sem greitt er í neðri þrepunum.
- Árið 2010 var í fyrsta sinn veitt heimild til að draga frá tekjuskattstofni kostnað við viðhald húsnæðis. Sú heimild var veitt í þeim tilgangi að efla byggingarstarfsemi í landinu sem varð fyrir meira áfalli en aðrar atvinnugreinar. Samtals eru dregnir nær 1,6 milljarður frá skattstofni við álagningu 2011 á grundvelli framtala yfir 18 þúsund fjölskyldna. Launagreiðslur vegna viðhaldsverkefna sem sótt er um lækkun fyrir hafa þannig numið að minnsta kosti 3,2 milljörðum króna.
- Útsvarstekjur til sveitarfélaga nema alls 109,7 milljörðum króna og eru nær óbreyttar milli ára. Þær reiknast af öllum skattstofninum en ónýttur persónuafsláttur greiðir skattinn að hluta.
- Mikil breyting var á álagningu fjármagnstekjuskatts frá fyrra ári. Skatthlutfall var hækkað og nam 18% en með 100.000 kr frítekjumarki vaxtatekna. Álagður fjármagnstekjuskattur einstaklinga nemur 10,1 milljarði króna og lækkar um 35,5% milli ára. Mikil fækkun er á þeim sem greiða skattinn, einkum vegna frítekjumarksins og eru þeir nú tæplega 47 þúsund en voru 183 þúsund árið áður þegar greiddur var skattur af öllum vaxtatekjum. Vextir eru enn stærsti einstaki liður fjármagnstekna þótt vaxtatekjur hafi dregist saman um nær helming frá árinu 2009. Samdrátturinn varð hlutfallslega mestur í arðstekjum en þær voru einungis 30% af því sem þær höfðu verið árið áður. Söluhagnaður dregst saman um helming en eini liður fjármagnstekna sem vex eru leigutekjur. Framtaldar fjármagnstekjur námu samtals 66,3 milljörðum.
- Frumálagning auðlegðarskatts fer nú fram í annað sinn og endurálagning í fyrsta sinn. Skatthlutfall var hækkað frá fyrra ári og eignamörk lækkuð. Nettóeignarmörk einhleypings eru 75 milljónir kr. og hjá hjónum 100 milljónir kr. Skatturinn er 1,5% af þeirri eign sem umfram mörkin er. Auðlegðarskatt greiða 4.800 aðilar, samtals 4,8 milljarða. Hjón greiða skattinn sitt í hvoru lagi og því eru fjölskyldur sem hann greiða færri en þetta. Viðbótarálagning vegna hlutafjáreignar ársins á undan nær til næstum jafn margra og greitt höfðu auðlegðarskatt árið á undan. Álagningin, sem fór fram eftir reglum fyrra árs og með þeim mörkum sem þá giltu, nam 1,8 milljörðum.
- Framtaldar eignir heimilanna námu 3.466 milljörðum króna í lok síðasta árs og höfðu þær dregist saman um 9% frá fyrra ári. Þá er ekki tekið tillit til endurmats eigna í tengslum við endurálagningu auðlegðarskatts. Fasteignir töldust 2.248 milljarðar að verðmæti eða 64,9% af eignum en verðmæti þeirra hafði dregist saman um tæp 10% milli ára. Eigendum fasteigna fækkaði enn milli ára og nú um 1,7%. Framtaldar skuldir heimilanna námu alls 1.878 milljörðum króna í árslok 2010 og höfðu dregist saman um 0,8% milli ára. Framtaldar skuldir vegna íbúðarkaupa stóðu því sem næst í stað og námu 1.151,6 milljörðum króna. Skuldir vegna íbúðarkaupa nema nú í fyrsta sinn yfir helmingi af verðmæti fasteigna í eigu einstaklinga. Þrátt fyrir það telja um 26 þúsund af 95 þúsund fjölskyldum sem eiga íbúðarhúsnæði ekki fram neinar skuldir vegna kaupa á því.
- Reglum um barnabætur var breytt við álagninguna í ár. Nú var tekin upp tekjutenging á öllum barnabótum og tekjutenging vegna þeirra sem eiga eitt barn var hækkuð úr 2% af tekjum umfram viðmiðunarmörk í 3%. Nú verða greiddir út 8 milljarðar króna í barnabætur til 20% færri fjölskyldna en var á fyrra ári meðan meðalbætur standa nokkurn veginn í stað.
- Reglum um úthlutun vaxtabóta var sömuleiðis breytt mjög í álagningunni í ár og tekin upp sérstök vaxtaniðurgreiðsla. Breytingunum á almennum vaxtabótum var ætlað að koma til móts við skuldugar fjölskyldur með lágar og meðaltekjur. Hámark heimilaðra vaxtagjalda var þannig hækkað mjög og tekur nú meira tillit til raunverulegra vaxtagjalda þjóðfélagshópa en áður. Hámark vaxtabóta var sömuleiðis hækkað. Á móti þessu var tekjuskerðing aukin. Ákvarðaðar almennar vaxtabætur vegna vaxtagjalda af lánum til kaupa á íbúðarhúsnæði, sem einstaklingar greiddu af á árinu 2010, nema 12,0 milljörðum króna í ár. Almennar vaxtabætur fá 56.600 fjölskyldur. Sérstök vaxtaniðurgreiðsla sem nemur 0,6% af skuldum upp að hámarki sem er skert af eignum nemur samtals 6,3 milljörðum og hana fá næstum 103 þúsund einstaklingar. Stuðningur ríkisins við vaxtakostnað íbúðareigenda nemur þannig samtals 18,3 milljörðum, 30% af heildarvaxtakostnaði heimila í landinu vegna íbúðarkaupa, en hann var 60,2 milljarðar árið 2010.
- Útvarpsgjald nemur 3,2 milljörðum króna. Það er 17.900 kr á hvern framteljanda á aldrinum 16-69 ára sem greiðir tekjuskatt. Greiðendum útvarpsgjalds fækkar um rúmlega 3.600 milli ára. Gjald í framkvæmdasjóð aldraðra nemur 1,5 milljarði króna og leggst á sama hóp framteljenda.
- Hinn 29. júlí nk. koma til útborgunar úr ríkissjóði til framteljenda 23,7 milljarðar króna eftir skuldajöfnun vegna vangoldinna krafna. Aldrei hefur meira fé verið greitt úr ríkissjóði við álagningu og munar 6,5 milljörðum frá fyrra ári. Almennar vaxtabætur eru stærsti hluti útborgunarinnar en þær nema 10,4 milljörðum eða 87% af vaxtabótum ársins. Auk þess nemur sérstök vaxtaniðurgreiðsla 2,9 milljörðum og er hér um að ræða seinni útgreiðslu ársins. Fjórðungur barnabóta ársins verður útborgaður og nemur fjárhæðin 2,2 milljörðum. Síðasti hluti þeirra, 2,2 milljarðar króna, kemur til útborgunar 1. nóvember nk. Ofgreidd staðgreiðsla sem verður endurgreidd 29. júlí nemur 7,8 milljörðum króna.
- Álagðir skattar sem koma til greiðslu á tímabilinu september til desember nema 18,8 milljörðum króna. Er þar aðallega um að ræða tekjuskatt og útsvar, eftirágreiddan fjármagnstekjuskatt og auðlegðarskatt.
Fjármálaráðuneytinu, 25. júlí 2011