Norræn ráðstefna um velferð og fagmennsku
„Samstarf, samráð og samkennd þjóðanna gerir okkur sterkari“ sagði Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra við opnun norrænnar ráðstefnu um velferðarmál og fagmennsku; Welfare and professionalism in Turbulent Times, sem nú stendur fyrir í Reykjavík. Hann ræddi meðal annars um hugmyndafræði og gildi sem einkenna norræna velferðarmódelið og um þær áskoranir sem Norðurlandaþjóðirnar standa frammi fyrir við rekstur velferðarkerfa sinna á erfiðum tímum:
„Hlutverk okkar allra, okkar Norræna velferðarsamfélags, er að gæta þeirra sem eiga undir högg að sækja, gæta barna, ýmissa jaðarhópa og berjast gegn fátækt. Samhliða uppstokkun og endurskoðun ríkisútgjalda verðum við að huga að því fólki sem er hrætt og óöruggt vegna ástandsins í heiminum, óvissu um afkomu sína, hvernig þeim og börnum þeirra reiðir af í nýju aðstæðum.“
Ráðherra sagði að þótt norrænu þjóðirnar væru ekki allar jafn hart keyrðar af völdum efnahagsþrenginga færi engin þeirra varhluta af vandanum: „Við stöndum öll frammi fyrir brennandi spurningum um það hvernig við getum áfram rekið öflugt og gott velferðarkerfi sem mætir fjölbreyttum þörfum fólks við ólíkar aðstæður og stuðlar að jöfnuði á sama tíma og við þurfum að spara fé og jafnvel skera niður.
Auðvitað er það ábyrgð okkar á öllum tímum að fara vel með almannafé og að veita sem mesta og besta velferðarþjónustu í samræmi við þarfir fólks á sem hagkvæmastan hátt. Þessi ábyrgð er þó meira knýjandi nú en nokkru sinni. Við þurfum að endurmeta hvaða þjónusta er nauðsynleg og hver á að veita hana og greiða fyrir hana. Við verðum að vera óhrædd að ræða ný tækifæri, skoða hvað betur má gera, nýta okkur rannsóknir, reynslu og þekkingu, vera gagnrýnin og leita nýrra leiða.“