Hoppa yfir valmynd
18. ágúst 2011 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Fundað með forsvarsmönnum og nemendum Kvikmyndaskóla Íslands

Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur lokið mati sínu á rekstrarhæfi Kvikmyndaskóla Íslands. Niðurstaða þess er að skólinn geti ekki uppfyllt skilyrði viðurkenningar um rekstrarhæfi.

Helstu atriði:

  • Kvikmyndaskóli Íslands hefur ekki sýnt fram á að hann geti uppfyllt skilyrði reglugerðar um viðurkenningu einkaskóla á framhaldsskólastigi að því er rekstrarhæfi varðar.
  • Ráðuneytið getur ekki mælt með auknum ríkisframlögum til Kvikmyndaskóla Íslands og hefur Ríkisendurskoðun komist að sömu niðurstöðu meðan svo mikil óvissa ríkir um rekstur skólans.
  • Mennta- og menningarmálaráðherra fundaði með forsvarsmönnum skólans um þetta mat ráðuneytisins og kynnti jafnframt nemendum skólans stöðuna.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur lokið mati sínu á rekstrarhæfi Kvikmyndaskóla Íslands. Niðurstaða þess er að skólinn geti ekki uppfyllt skilyrði viðurkenningar um rekstrarhæfi. Ríkisendurskoðun tekur undir mat ráðuneytisins og telur auk þess rétt að ráðist verði í sérstaka úttekt á því hvernig farið hefur verið með framlag ríkisins til skólans. Í ljósi þessa er ekki unnt að ganga til samninga við Kvikmyndaskóla Íslands um hækkun á fjárframlögum til hans meðan svo mikil óvissa ríkir um reksturinn.

Mennta- og menningarmálaráðherra fundaði með forsvarsmönnum Kvikmyndaskóla Íslands í dag og kynnti þeim fyrrgreinda afstöðu. Áréttaði ráðherra að skólinn hefði skuldbindingar gagnvart nemendum og óskaði eftir svörum um hvernig hann hygðist standa við þær.

Að loknum fundi með forsvarsmönnum skólans fundaði ráðherra með nemendum og kynnti þeim þá stöðu sem upp er komin.

Beðið er upplýsinga um áform skólans um næstu skref og þá með hvaða hætti ráðuneytið getur komið að þeim skrefum með hagsmuni nemendanna að leiðarljósi.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta