Kalmanshellir friðlýstur
Umhverfisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, undirritar á morgun friðlýsingu Kalmanshellis í Hallmundarhrauni.
Kalmanshellir er í raun hellakerfi, í heildina 4.014 kílómetra langt, sem gerir hann að lengsta helli landsins en talið er að Hallmundarhraun hafi runnið á fyrstu áratugum tíundu aldar. Hellirinn hefur að geyma óvenju glæsilegar hraunmyndanir, dropstrá og dropsteina, rennslismynstur og storkuborð. Telst hellirinn vera einstakt náttúrufyrirbæri á heimsvísu enda skartar hann m.a. einu lengsta þekktasta hraunstrái jarðar, sem er 165 sentímetrar á lengd.
Með friðlýsingu Kalmanshellis er leitast við að vernda hellinn, hinar einstæðu jarðmyndanir hans og hellakerfið allt. Markmiðið er að koma í veg fyrir röskun og skemmdir á jarðmyndunum og eru því sérstakar takmarkanir á aðgangi að viðkvæmasta hluta hellisins.
Áður hafa tveir hellar verið friðlýstir hér á landi en þeir eru Jörundur í Lambahrauni og Árnahellir í Leitahrauni. Að auki eru dropsteinsmyndanir í öllum hellum landsins friðlýstar.
Friðlýsing Kalmanshellis er í samræmi við sjálfbærnistefnu Íslands, Velferð til framtíðar þar sem m.a. segir að varðveita verði fjölbreytileika jarðmyndana með því að vernda þær sem eru sérstakar eða einstakar á svæðis-, lands-, eða heimsvísu.