Hoppa yfir valmynd
19. ágúst 2011 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp umhverfisráðherra við friðlýsingu Kalmenshellis

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra flutti eftirfarandi ávarp við undirritun friðlýsingar Kalmanshellis í Hallmundarhrauni sem fram fór þann 19. ágúst 2011.

Ágæta samkoma

Það er mér mikil ánægja að staðfesta hér í dag friðlýsingu Kalmanshellis í Hallmundarhrauni en tillaga að friðlýsingunni barst frá landeigendum jarðarinnar Kalmanstungu og Árna B. Stefánssyni hellaáhugamanni fyrir nokkrum árum.

Árið 1993 var Kalmanshellir kortlagður af bandarískum og íslenskum hellamönnum undir leiðsögn hellafræðingsins Jay R. Reich. Niðurstaða kortlagningarinnar var að Kalmanshellir reyndist 4010 metrar að lengd og er því lengsti hellir landsins. Sérstakar jarðmyndanir, lengd hellisins og þeir dropsteinar sem í honum finnast gera Kalmanshelli að einstöku náttúruvætti sem okkur ber skylda til að varðveita og vernda, ekki síst fyrir þá sem á eftir okkur koma.

Það er einmitt markmið þeirra friðlýsingar sem við undirritum hér í dag að vernda þessar einstæðu jarðmyndanir og hellakerfið allt. Einnig er með friðlýsingunni stefnt að því að koma í veg fyrir röskun og skemmdir á jarðmyndunum hellisins. Þess vegna eru sérstakar takmarkanir á aðgangi að viðkvæmasta hluta hans.

Áður hafa tveir hellar verið friðlýstir hér á landi á grunni náttúruverndarlaga, en þeir eru Jörundur í Lambahrauni og Árnahellir í Leitarhrauni, en auk þess eru dropsteinamyndanir í öllum hellum landsins friðlýstar. Hellirinn Jörundur var friðlýstur sem sérstakt náttúruvætti árið 1985, en hellirinn er afar sérstakur vegna mikils fjölda dropsteina. Árnahellir var friðlýstur sem náttúruvætti árið 2002 og er markmið friðlýsingarinnar að vernda hellinn ásamt einstæðum jarðmyndunum. Árnahellir er í flokki örfárra hella á jörðinni sem skarta svo glæsilegum og ósnortnum hraunmyndunum og er hann talinn náttúrufyrirbæri á heimsvísu. Til að tryggja verndun hellanna eru þeir báðir lokaðir fyrir almennri umferð.

Mikilvægt er að umsjón og eftirlit með svo sérstæðum jarðmyndunum sem hellar eru verði með besta móti til að tryggja vernd þeirra og þau náttúruverðmæti sem í þeim felast og eru ekki endurheimtanleg. Þar sem í mörgum hellum eru afar viðkvæmar myndanir hafa komið fram tillögur um að flokka hella með tilliti til þess hvort heimila eigi aðgang að þeim eða ekki.

Ég tel afar brýnt að sem fyrst verði unnið að slíkri flokkun hella með tilliti til þess hvort unnt sé að heimila frjálsan aðgang að þeim eða ekki.

Árni B. Stefánsson hellaáhugamaður hefur líkt og hellafræðingar víða um heim gert tillögu að flokkun.

Ég tel að við séum öll sammála um að æskilegt sé að stjórna umferð um hella, beita ítölu þar sem það á við og útbúa þá hella sem heimila á umferð um þannig úr garði að valdi minnstum skemmdum. Einnig þarf að tryggja gestum bætt aðgengi svo sem með stígum og pallastígum eins gert hefur verið í Vatnshelli í Þjóðgarðinum Snæfellsjökli.

Góðir gestir.

Eitt helsta sérkenni íslensks landslags eru þær einstöku jarðmyndanir sem hér eru og mótast hafa í átökum meginafla jarðar, elds, íss og vatns. Óvíða utan Íslands er jafn auðvelt að sjá hvernig þessi öfl hafa mótað yfirborðið. Jarðmyndanir eru því eitt af sérkennum íslenskrar náttúru sem eru verðmæt og okkur ber að vernda.

En höfum við staðið vörð um þá sérstöku jarðfræðilegu ásýnd landsins sem við teljum svo einstaka og verðmæta? Því miður tel ég svo ekki vera. Í 37. gr. náttúruverndarlaga er kveðið á um sérstaka vernd m.a. eldvarpa, gervigíga og eldhrauna og að forðast skuli röskun þeirra eins og unnt er. Reynslan hefur sýnt okkur að ekki hefur náðst sá árangur sem að var stefnt með þessu ákvæði laganna. Ákvæðið er veikt og það hefur ekki haft mikla þýðingu t.d. við útgáfu framkvæmdaleyfa.

En á þessu fer nú vonandi að verða breyting.

Seinni hluta árs 2009 skipaði ég nefnd til að vinna að endurskoðun náttúruverndarlaga og fer því starfi nefndarinnar að ljúka. Nefndin hefur lokið gerð frumvarps um breytingu á náttúruvendarlögum sem ég mun kynna í ríkisstjórn í byrjun september og mæla fyrir á nýju haustþingi. Frumvarpið felur í sér breytingu á m.a. 37. gr. og miðar að því að bæta úr ómarkvissu orðalagi og skorti á leiðbeiningum um beitingu greinarinnar. Með þessum breytingum er miðað að því að betur verði vandað til málsmeðferðar stjórnvalda þegar teknar eru ákvarðanir sem snerta náttúrufyrirbæri sem falla undir greinina, s.s. eldvörp, gervigíga og eldhraun.

Samhliða þessari vinnu hefur nefndin unnið að heildarúttekt eða Hvítbók um löggjöf til verndar náttúru Íslands og er gert ráð fyrir að því verkefni ljúki um næstu mánaðamót. Á grundvelli Hvítbókarinnar verður unnið nýtt frumvarp til náttúruverndarlaga sem ég vonast til að geta mælt fyrir á komandi vorþingi. Með nýjum lögum verður friðlýsingaferlið einfaldað, viðurlög styrkt og þar með staða náttúruverndar efld í löggjöfinni.

En sú ógn sem steðjar að merkum jarðmyndunum tengist ekki eingöngu framkvæmdum. Við þurfum einnig að vera á varðbergi vegna álags og ágengni tengdri ferðamennsku. Því hvet ég hellaáhugamenn og fagstofnanir til að vinna svo fljótt sem auðið er að flokkun hella hér á landi og loka þeim hellum sem nauðsynlegt er til að vernda sérstæðar og í sumu tilfellum einstakar jarðmyndanir á heimsvísu.

Að lokum óska ég okkur öllum til hamingju með friðlýsinguna í dag og treysti því að friðun hellisins verði núverandi kynslóð jafnt sem komandi kynslóðum til ánægju og framdráttar.

Takk fyrir

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta