Aukið samstarf við Finna um norðurslóðir
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra ræddi evrópu- og norðurslóðamál á fundi sínum með Erkki Tuomioja, utanríkisráðherra Finnlands í Tallinn í Eistlandi í gær. Ráðherra þakkaði Finnum samstarfið í Evrópumálum en þeir hafa m.a. veitt sérfræðiráðgjöf um landbúnaðar- og byggðamál. Ráðherra fór yfir stöðuna í viðræðunum við Evrópusambandið og hét finnski ráðherrann áframhaldandi fullum stuðningi við umsókn Íslands. Þeir fóru yfir stöðuna á evrusvæðinu og finnskum stjórnmálum þar sem ný ríkisstjórn hefur nýlega tekið við völdum.
Ráðherrarnir hétu því að auka samstarf þjóðanna um norðurslóðamál þar sem sérstaklega var rætt um uppbyggingu í menntun, rannsóknum og fjarkennslu. Samstarfið verði þróað áfram í vetur.