Dragnótabann á Vestfjörðum
Nr. 44/2011
Dragnótabann á Vestfjörðum.
Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur gefið út reglugerð sem bannar dragnótaveiði í innstu hlutum fjarða Vestfjarða.
Þannig er almennt bann við dragnótaveiðum skipa sem eru lengri en 20 metrar á svæði sem markast af línu sem dregin er frá Sauðanesvita milli Súgandafjarðar og Önundafjarðar, þaðan í Barða við sunnanverðan Önundarfjörð og síðan frá Fjallaskagavita við norðanverðan Dýrafjörð sjónhendingu í Kópanesvita sunnan Arnarfjarðar og áfram í Blakknes í sunnanverðu mynni Patreksfjarðar.
Þá er með sömu reglugerð dragnótaveiði bönnuð innan tiltekinna puntka í Hesteyrarfirði, Veiðileysufirði og Jökulfjörðum. Í Ísafjarðardjúpi eru dragnótaveiðar bannaðar innan Æðeyjar og Ögurhólma.
Dragnótaveiði skipa sem eru 20 metra og minni er heimiluð á tilteknum svæðum innan framangreindra svæða í Önundarfirði, Dýrafirði, Arnarfirði, Tálknafirði, Patreksfirði, Hesteyrarfirði og Djúpi.
Þá er skipum sem eru lengri en 20 metrar og stundað hafa dragnótaveiðar á innfjörðum Vestfjarða frá 2008 heimilt að halda því áfram yfir sumarmánuðina innan tiltekinna svæða í Önundafirði, Dýrafirði, Arnarfirði, Tálknafirði og Patreksfirði.
Reglugerð þessi öðlast þegar gildi en nánari tilgreining tímamarka er að finna í reglugerðinni sjálfri sem lesa má hér.