Samstarf Íslands og AGS um efnahagsáætlun á leiðarenda
Ísland útskrifast
- Samstarf Íslands og AGS um efnahagsáætlun komið á leiðarenda -
Stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins samþykkti í Washington í dag síðustu endurskoðun efnahagsáætlunar Íslands sem þar með verður fyrsta ríkið til að útskrifast úr slíkri áætlun í yfirstandandi alþjóðafjármálakreppu.
Stjórn AGS samþykkti efnahagsáætlun íslenskra stjórnvalda þann 19. nóvember 2008. Með afgreiðslu stjórnarinnar í dag kemur síðasti hluti lánafyrirgreiðslunnar, 51 milljarður króna, til útgreiðslu. Áður hefur verið afgreidd upphæð að jafngildi 200 milljarðar króna. Þar til viðbótar kemur lántökuréttur frá Norðurlöndunum og Póllandi í tengslum við áætlunina, samtals 150 milljarðar króna.
Samstarf Íslands og AGS hefur vakið athygli fyrir árangur á meginsviðum. Efnahagslegur stöðugleiki hefur náðst eftir „hinn fullkomna storm", en þannig lýsti AGS stöðunni á Íslandi í október 2008. Fjármálakerfi hefur verið endurreist, ríkisfjármál aðlöguð að gjörbreyttum aðstæðum og endurnýjaður aðgangur ríkisins að alþjóðlegum mörkuðum var staðfestur í velheppnuðu skuldabréfaútboði í júní sl. Meginmarkmið efnahagsáætlunarinnar hafa náðst.
Helstu markmið áætlunarinnar hafa verið:
• Efnahagslegur stöðugleiki
• Aðlögun ríkisútgjalda
• Varðstaða um útgjöld til velferðarmála til að milda áhrif kreppunnar
• Endurreisn fjármálakerfisins
• Lausn skuldavanda heimila og fyrirtækja
• Endurreisn trausts á íslenskt efnahagslíf
Efnahagslegur stöðugleiki tryggður
Efnahagur þjóðarinnar hefur nú tekið við sér. Spár gera ráð fyrir tæplega 3% hagvexti á árinu. Krónan hefur verið tiltölulega stöðug, þótt hún sé enn lág á meðan aðgengi fjármálafyrirtækja og einkageirans í heild að erlendu lánsfjármagni er takmarkað. Með gjaldeyrishöftum var hægt að koma í veg fyrir mikinn óstöðugleika krónunnar, sem hjálpaði við að ná tökum á verðbólgu, endurreisa fjármálakerfið og endurskipuleggja efnahag heimila og fyrirtækja. Stýrivextir eru nú 4,5% en fóru hæst í 18% í nóvember 2008. Umtalsverður afgangur er af vöru- og þjónustuviðskiptum við útlönd. Atvinnuleysi er enn hátt en minnkar hraðar en búist var við og hefur ekki verið lægra frá hruni. Sama má segja um kaupmátt launa sem eykst á ný og hefur ekki verið meiri frá hruni.
Mikill árangur í ríkisfjármálum
Áætlanir stjórnvalda og AGS í ríkisfjármálum hafa staðist til þessa. Viðsnúningurinn í frumjöfnuði ríkissjóðs stefnir í að verða 8,3% af VLF árið 2012 og er stefnt að því að hann aukist enn meira árin þar á eftir og verði um 10-11% frá því bankakerfið hrundi haustið 2008. Markmið um að loka fjárlagagatinu og gera ríkisfjármálin sjálfbær hafa náðst með blandaðri aðferðafræði í formi lækkunar útgjalda og hækkunar tekna. Tekist hefur að hlífa velferðakerfinu í niðurskurði og lægstu launum í tekjuöflun. Komið var í veg fyrir frekari skuldsetningu ríkissjóðs og hlutfall skulda af VLF fer lækkandi á næstu árum. Í ljósi góðs árangurs og til að styðja betur við efnahagsbatann hefur ríkisfjármálaáætlunin nú verið endurskoðuð og aðlöguð að aðstæðum í samstarfi við AGS. Snýr það m.a. að svigrúmi til að mæta áhrifum kjarasamninganna frá sl. vori. Ný ríkisfjármálaáætlun til meðallangs tíma verður birt samhliða framlagningu fjárlagafrumvarps 1. október næstkomandi.
Endurreisn fjármálakerfisins
Fjármálakerfið hefur verið endurreist að stærstum hluta eftir algert hrun þess. Kostnaður ríkisins er mun lægri en upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir. Regluverk og eftirlit hefur verið endurskoðað frá grunni og heldur það starf áfram.
Víðtækar aðgerðir til úrlausnar skuldavanda heimila og fyrirtækja
Meðal brýnna verkefna sem efnahagsáætlunin hefur tekið til er endurskipulagning skulda heimila og fyrirtækja. Víðtækt samkomulag milli lánveitenda á íbúðalánamarkaði og stjórnvalda náðist í lok árs 2010 um lækkun skulda yfirveðsettra heimila (110% leiðin), auknar vaxtabætur og vaxtaniðurgreiðslur o.fl. Á sama tíma var gert samkomulag um endurskipulagningu skulda lítilla og meðalstórra fyrirtækja, nefnt Beina brautin. Þessar aðgerðir hafa vakið athygli víða um heim.
Endurnýjað traust
Í kjölfar falls bankanna hrundi traust á íslenskum þjóðarbúskap. Samstarfið við AGS veitti leið Íslands með setningu neyðarlaga og þrotameðferð banka trúverðugleika og skapaði forsendur til samninga við kröfuhafa um endurfjármögnun þeirra með léttari byrðum fyrir ríkissjóð. Skuldatryggingarálag á Ísland hækkaði mikið við hrunið og varð hæst 1.400 punktar. Til marks um endurheimt traust er álagið nú um 260 punktar. Endurnýjað traust staðfestist einnig í afar vel heppnuðu ríkisskuldabréfaútboði í júní síðast liðinn og sýndi áhuga erlendra fagfjárfesta á Íslandi.