Utanríkisráðherrar Norðurlanda og Eystrasaltsríkja undirrita samkomulag um samvinnu
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra sat í dag og gær fund utanríkisráðherra Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna í Helsinki. Í lok fundar undirrituðu ráðherrarnir samkomulag um að sendifulltrúar ríkjanna geti starfað og haft aðsetur í sendiráðum og fastanefndum hinna ríkjanna erlendis. Samkomulagið gerir ríkjunum kleift að vera með viðveru víðar en nú er og eykur þar með sveigjanleika í rekstri.
Við undirritun samningsins lýstu utanríkisráðherrarnir því yfir að hann væri til marks um þá samstöðu sem ríkti meðal Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna og um aukna samvinnu í utanríkismálum. Samkomulagið er gert á sama tíma og Eystrasaltsríkin minnast þess að tuttugu ár eru frá því að þau endurheimtu sjálfstæði sitt og komu á diplómatískum samskiptum við önnur ríki.
Utanríkisráðherrarnir funduðu ennfremur með utanríkisráðherra Úkraínu, Kostyantyn Gryshchenko og fulltrúa heimastjórnar Palestínumanna. Þá ræddu ráðherrarnir málefni Mið-Austurlanda, samstarf Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna, málefni Balkanskaga og nágrannasamstarf Evrópusambandsins.