Ráðstefna um aukið lýðræði 14. september
Efling lýðræðis hjá ríki og sveitarfélögum er umfjöllunarefni ráðstefnu sem innanríkisráðuneytið efnir til 14. september næstkomandi. Þátttakendur eru beðnir að skrá sig með því að senda póst á netfangið: [email protected] fyrir 12. september.
Nefnd innanríkisráðherra og Sambands íslenskra sveitarfélaga um eflingu sveitarstjórnarstigsins annast undirbúning ráðstefnunnar sem ætluð er sveitarstjórnarfólki og áhugafólki um aukið lýðræði.
Með ráðstefnunni vill innanríkisráðuneytið hvetja til aukinnar umræðu um hvernig efla má lýðræði í íslenskri stjórnsýslu og fjalla um hvort og hvernig koma megi á beinu lýðræði með aukinni og reglulegri þátttöku íbúa í ákvörðunum ríkis og sveitarfélaga.
Dagskrá
Í upphafi ráðstefnunnar flytja ávörp þeir Jón Gnarr borgarstjóri, Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands og Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra flytur erindi sem nefnist: Valdið til fólksins. Íslenskir og erlendir sérfræðingar flytja síðan fyrirlestra um ýmsar hliðar málsins:
Svisslendingurinn Bruno Kaufmann, formaður samtakanna Initiative and Referendum Institute Europe, fjallar meðal annars um hvernig koma á beinu fulltrúalýðræði og aukið mikilvægi þess í Sviss, Svíinn Andreas Konstantinidis, formaður hverfisráðs í Rosengard, ræðir um dreifstýringu í Malmö, reynslu af starfi hverfisráðs Rosengård, Regína Ásvaldsdóttir, skrifstofustjóri borgarstjóra, ræðir um þorpin í borginni, þróun íbúalýðræðis og nærþjónustu í Reykjavík og Íris Ellenberger, doktorsnemi í sagnfræði og stjórnarmaður í Lýðræðisfélaginu Öldunni, fjallar um efnið beint lýðræði á sveitarstjórnarstigi.
Þá munu vinnuhópar starfa og taka til umfjöllunar ákveðin svið málsins og í lok starfs þeirra verður gerð grein fyrir niðurstöðunum. Ráðstefnustjóri er Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri innanríkisráðuneytis, og umræðustjórar þau Salvör Nordal, forstöðumaður siðfræðistofnunar Háskóla Íslands, og Óskar Dýrmundur Ólafsson, framkvæmdastjóri Vesturgarðs.
Ráðstefnan verður haldin í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur milli klukkan 10.15 og 17 miðvikudaginn 14. september. Ráðstefnan fer fram á íslensku en mál erlendra fyrirlesara verður túlkað og táknmálstúlkun verður einnig fyrir hendi. Ráðstefnan er öllum opin og aðgangur gjaldfrjáls.
Skráning
Þátttakendur eru beðnir að skrá sig með því að senda póst á netfangið: [email protected] fyrir 12. september.
Í tengslum við ráðstefnuna verður jafnframt opnuð í Tjarnarsalnum sýningin: Nútímalegt beint lýðræði í Sviss og á Íslandi. Þar verður fjallað um þróun og fyrirkomulag beins lýðræðis og aukna þátttöku íbúa beggja landa.
Sýningin er á vegum Lagastofnunar Háskóla Íslands og mun stofnunin halda ráðstefnu 15. september á sama stað sem verður nánar kynnt síðar.