Andrés Ingi Jónsson nýr aðstoðarmaður umhverfisráðherra
Andrés Ingi Jónsson hefur tekið við sem aðstoðarmaður Svandísar Svavarsdóttur umhverfisráðherra. Andrés Ingi mun taka við af Hafdísi Gísladóttur, sem hefur snúið sér að námi í lögfræði við Háskóla Íslands.
Andrés Ingi hefur undanfarið verið í fæðingarorlofi, en starfaði í vor sem nefndarritari hjá Stjórnlagaráði. Hann var aðstoðarmaður Álfheiðar Ingadóttur heilbrigðisráðherra árið 2010 og leysti áður af sem upplýsingafulltrúi heilbrigðis- og umhverfisráðuneytanna. Áður var hann verkefnisstjóri hjá Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands, en þar á undan blaðamaður á 24 stundum.
Andrés er með meistarapróf í alþjóðastjórnmálum frá University of Sussex og BA-gráðu í heimspeki frá Háskóla Íslands.