Góðar fréttir af endurheimtum úr búi gamla Landsbankans
Þær upplýsingar sem skilanefnd gamla Landsbankans sendi frá sér í gær, 1. september, um heimtur eigna þrotabús Landsbankans eru jákvæðar og í fullu samræmi við fyrra mat fjármálaráðuneytisins og samninganefndar um Icesave, að yfirgnæfandi líkur væru á að eignir þrotabús Landsbankans muni duga fyrir greiðslu á höfuðstóli forgangskrafna. Sú virðist enda vera raunin miðað við uppfært eignamat skilanefndarinnar.
Það þýðir að þrotabúið muni geta greitt innstæðueigendum, og þeim sem halda á kröfum vegna innstæðna (að stærstum hluta til innstæðutryggingasjóðir Bretlands og Hollands), viðurkenndar kröfur. Vonir standa til þess að allt að ríflega þriðjungur þessara krafna verði greiddur seint á þessu ári, en eftirstöðvar dreifist á nokkur ár, eftir því sem tekjur af eignum þrotabúsins berast.
Uppfært heimtumat skilanefndar á eignum þrotabús Landsbankans og greiðslur úr búinu breytir engu um það ferli sem í gangi er gagnvart Eftirlitsstofnun EFTA eftir því sem fram kom í rökstuddu áliti stofnunarinnar frá 10. júní sl. Samningsbrotamál á hendur íslenskum stjórnvöldum á hendur fyrir EFTA dómstólnum virðist óumflýjanlegt í því ljósi.
Það er engu að síður jákvætt að heimtur skuli fara batnandi, og gera vonandi áfram, þannig að bæði forgangskröfuhafar og almennir kröfuhafar fái greiddan sem stærstan hluta krafna sinna.
Fjármálaráðuneytið og samninganefndin hafa í mati sínu gert ráð fyrir að áhætta ríkissjóðs fælist í vaxtakostnaði sem kynni að falla á stjórnvöld fram til þess tíma er greiðslur taka berast upp í kröfur. Það mat er óbreytt.