Hoppa yfir valmynd
2. september 2011 Forsætisráðuneytið

Góður árangur í efnahags- og atvinnumálum ótvíræður

Forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir flutti Alþingi munnlega skýrslu um stöðu efnahags- og atvinnumála við upphaf þingfundar í dag. Í skýrslunni fjallaði forsætisráðherra ítarlega um þann árangur sem náðst hefur í efnahags- og atvinnumálum á liðnum árum og þau fjölmörgu spennandi verkefni sem framundan eru við uppbyggingu atvinnulífs og samfélags á komandi misserum.

„Þegar allt er sett í samhengi og horft til þess þunga áfalls sem hrunið var þjóðinni, segi ég óhikað: við höfum náð árangri og við erum að vinna okkur út úr erfiðleikunum. Allir sanngjarnir menn sjá að hér hefur margt áunnist. Seðlabankinn spáir að hagvöxtur verði að meðaltali 2,7% árin 2011-2013;  2,8% í ár, 1,6% á því næsta og 3,7% árið 2103.
Það bendir raunar ýmislegt til þess að hagvöxtur ársins 2011 kunni að vera vanmetinn. Fyrirliggjandi verkefni er svo sannarlega að auka efnahagsumsvif og hagvöxt næsta árs. Störfum er að fjölga og atvinnuleysi er að ganga niður sem er til vitnis um að við erum á réttri leið. 

Kaupmáttur launa hefur ekki verið hærri allt frá hruni og var í júlí sl. um 2,6% meiri en á sama tíma í fyrra. Kaupmáttur lægstu launa hefur hækkað enn meira eða um 4%. Hrunið færði kaupmáttinn aftur til ársins 2002 og þurrkaði þannig út 5-6 ára kaupmáttaraukningu. Með vaxandi kaupmætti höfum við nú endurheimt þann kaupmátt sem var árið 2004. 
Hrunið sópaði burt 12-13 þúsund störfum eða nær fjórtánda hverju starfi. Nú er störfum tekið að fjölga á ný og úr atvinnuleysi er að draga. Í júlí var atvinnuleysi 6,6% og hefur það ekki verið lægra síðan í desember 2008.“

Og forsætisráðherra sagði framtíðina bjarta.

„Tækifærin liggja víða og það er full ástæða til bjartsýni um öfluga fjárfestingu og hagvöxt á næstu árum. Kannanir Seðlabankans benda til að fjárfestingar  fyrirtækja utan stóriðju og orkugeirans séu að glæðast verulega og samkvæmt spá bankans stefnir í að atvinnuvegafjárfestingin aukist um nær 40% á tveimur árum eða um 50 milljarða króna.“

“Ég hef hér nefnt opinberar eða hálfopinberar framkvæmdir víða um land sem áætlað er að muni skila með beinum hætti í kringum 7.000 ný störf á næstu árum og fjölda afleiddra starfa. Þessar fjárfestingar eru upp á um  80-90.000 milljarða króna.  Eru þá ótaldar framkvæmdir í orkuverum og stóriðju, en reikna má með því að þar muni verða til sambærilegur fjöldi nýrra starfa. Ég legg einnig ríka áherslu á margvísleg verkefni sem efla munu nýsköpun og klasasamstarf og eru nú í farvegi. Mikils má vænta af þessu starfi og einnig vinnu að tillögum um græna atvinnusköpun.“

"Lífskjarasókn er framundan og þá lífskjarasókn verður að byggja á jafnari skiptingu tekna, samfélagslegri ábyrgð og virðingu fyrir náttúrugæðum. Reynslan sýnir að valið stendur ekki milli hagvaxtar og jafnaðar, því jöfnuður er forsenda varanlegs hagvaxtar og samfélagslegrar sáttar."

Skýrslu forsætisráðherra má sjá í heild hér á vefnum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta