Hoppa yfir valmynd
5. september 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Gagnkvæmar víxlverkanir sem skerða bætur eða lífeyri öryrkja afnumdar

Alþingi samþykkti fyrir helgi lagafrumvarp sem kemur í veg fyrir gagnkvæmar skerðingar örorkulífeyris úr lífeyrissjóðum og örorkulífeyris frá almannatryggingum.  

Með lagabreytingunni er eytt þeirri víxlverkun sem verið hefur um árabil í samspili þessara tveggja meginstoða almannatryggingakerfisins og örorkulífeyrisþegar munu nú sjálfir njóta að fullu þeirra hækkana sem verða á greiðslum almannatrygginga eða örorkulífeyri lífeyrissjóðanna. 

Stjórnvöld og Landssamtök lífeyrissjóða gerðu með sér samkomulag í lok síðasta árs, meðal annars með það að markmiði að koma í veg fyrir víxlverkun örorkulífeyris almannatrygginga og lífeyris úr lífeyrissjóðum. Með breytingunum sem Alþingi samþykkti fyrir helgi á lögum um almannatryggingar, lögum um félagslega aðstoð og lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda hefur þessi hluti samkomulags stjórnvalda og Landssamtaka lífeyrissjóða verið lögfestur.

Í lögunum er kveðið á um að örorkulífeyrir almannatrygginga, greiðslur örorkustyrks, aldurstengdrar örorkuuppbótar og tekjutryggingar lækki ekki vegna almennra hækkana á örorkulífeyri úr lífeyrissjóði. Sama máli gegnir um greiðslur heimilisuppbótar, uppbótar á lífeyri vegna kostnaðar og uppbótar vegna reksturs bifreiðar.  

Auk þessa er lögfest að almennar hækkanir á örorkulífeyrisgreiðslum samkvæmt almannatryggingalögum og lögum um félagslega aðstoð megi ekki leiða til lækkunar á örorkulífeyri til sjóðfélaga úr lífeyrissjóði.  

Lagabreytingarnar gilda frá 1. janúar 2011 til 31. desember 2013. Víxlverkunaráhrifin eru því afnumin í þrjú ár en á því tímabili verður unnið að því að finna lausn á fyrirkomulagi þessara mála til framtíðar. 

Í kostnaðarumsögn fjármálaráðuneytisins með frumvarpinu vegna þessara lagabreytinga segir að við mat á áhrifum þess sé gengið út frá því að lífeyrissjóðir taki mið af þróun launavísitölu við árlegar hækkanir á örorkubótum. Miðað við þjóðhagsspá Hagstofu Íslands um hækkun launavísitölu árin 2011–2013 muni frítekjumark lífeyrissjóðstekna árið 2011 verða 3.867 krónum hærra í reynd en það er nú, 11.776 krónum hærra árið 2012 og 20.740 krónum hærra árið 2013.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta