Hoppa yfir valmynd
5. september 2011 Utanríkisráðuneytið

Rýniskýrsla Evrópusambandsins um landbúnað og dreifbýlisþróun

Í dag barst íslenskum stjórnvöldum niðurstaða Evrópusambandsins vegna rýnivinnu um landbúnað og dreifbýlisþróun sem er liður í viðræðum Íslands um aðild að ESB. Í svonefndri rýniskýrslu Evrópusambandsins endurspeglast málflutningur fulltrúa Íslands í viðræðuferlinu hingað til um mikilvægi og sérstöðu íslensks landbúnaðar en í henni kemur m.a. fram:

1. Að landbúnaður sé mikilvægur vegna dreifbýlisþróunar, fæðuöryggis og sjálfbærni.

2. Að sérstaða íslensks landbúnaðar sé rík einkum vegna erfiðra loftslagsskilyrða og strjálbýlis.

3. Stjórnsýslan sé sniðin að innlendum aðstæðum, umfangi og eðli landbúnaðarins og koma verði í veg fyrir að stjórnsýsla verði of umfangsmikil.

4. Til að hægt sé að mæta þörfum landbúnaðarins muni verða nauðsynlegt að leita sérstakra lausna fyrir Ísland.

Ennfremur er vakin sérstök athygli á því að Ísland hyggst ekki breyta íslenska landbúnaðarkerfinu í tengslum við aðildarviðræðurnar fyrr en eftir samþykkt aðildarsamnings í þjóðaratkvæðagreiðslu eins og samninganefnd Íslands hefur lagt áherslu á.

Niðurstaða sambandsins er kynnt með bréfi til íslenskra stjórnvalda. Þar kemur fram að sambandið telji að forsenda þess að hægt sé að hefja samningaviðræður um landbúnað sé að íslensk stjórnvöld leggi fram tímasetta vinnuáætlun. Áætlunin kveði á um hvernig Ísland hyggist verða að fullu reiðubúið til þess að njóta þess ávinnings og axla þær skyldur sem af aðildarsamningi leiða á fyrsta degi aðildar, samþykki íslenska þjóðin aðildarsamning í þjóðaratkvæðagreiðslu. Í bréfinu tekur Evrópusambandið sérstaklega fram að taka skuli tillit til sérstakra aðstæðna á Íslandi.

Rýniskýrsla ESB og bréf frá fastafulltrúa Póllands hjá ESB, en Pólland fer nú með formennsku í ESB, hefur verið birt á heimasíðu utanríkisráðuneytisins um samningaviðræðurnar esb.utn.is.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta