Viðbrögð við opnunarskilyrðum ESB
Nr. 46/2011
Viðbrögð við opnunarskilyrðum ESB
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra barst í dag rýniskýrsla ESB um landbúnaðarmál þar sem Íslandi eru sett skilyrði fyrir því að farið sé í samningaviðræður um landbúnaðarmál.
Ráðherra telur að það þurfi að liggja ljósar fyrir að sú áætlunargerð sem ESB krefst feli ekki í sér aðlögun né breytingar á lögum eða regluverki, áður en aðild hefur verið samþykkt. Þá er ekki sjálfgefið að lögð sé fram áætlun um verkefni sem samningsaðilar hafa ekki rætt um né komist að samkomulagi um hvort henti Íslandi.
Af þeim sökum telur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra nauðsynlegt að fulltrúar ESB skýri með fullnægjandi og tæmandi hætti hvað átt er við með þeim skilyrðum sem fram koma í erindi ESB.
Ráðherra sjávarútvegs- og landbúnaðarmála mun hér eftir sem hingað til leggja áherslu á að fylgja samþykkt alþingis um aðildarviðræður en að sama skapi er brýnt að þau verkefni sem ráðist er í rúmist innan þeirra heimilda sem Alþingi hefur veitt.