Til framhaldsskóla vegna nýrrar aðalnámskrár framhaldsskóla
Í framhaldi af setningu nýrra laga árið 2008 um leikskóla, nr. 90/2008, grunnskóla, nr. 91/2008 og framhaldsskóla, nr. 92/2008 hefur mennta- og menningarmálaráðuneyti unnið að innleiðingu þeirrar menntastefnu sem þar er mörkuð. Undirstaða þeirrar vinnu er útgáfa nýrra aðalnámskráa fyrir skólastigin þrjú sem hafa nú verið staðfestar af ráðherra og birtar með auglýsingu í Stjórnartíðindum.
Í framhaldi af setningu nýrra laga árið 2008 um leikskóla, nr. 90/2008, grunnskóla, nr. 91/2008 og framhaldsskóla, nr. 92/2008 hefur mennta- og menningarmálaráðuneyti unnið að innleiðingu þeirrar menntastefnu sem þar er mörkuð. Undirstaða þeirrar vinnu er útgáfa nýrra aðalnámskráa fyrir skólastigin þrjú sem hafa nú verið staðfestar af ráðherra og birtar með auglýsingu í Stjórnartíðindum.
Í aðalnámskrám eru skilgreindir sex grunnþættir í menntun sem eiga sér stoð, hver með sínum hætti, í löggjöf fyrir leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Grunnþættirnir snúast um læsi á samfélag, menningu, umhverfi og náttúru, einnig um framtíðarsýn, getu og vilja til að hafa áhrif og taka virkan þátt í að viðhalda samfélagi sínu, breyta því og þróa. Þeim er ætlað að undirstrika meginatriði í almennri menntun og stuðla að meiri samfellu í öllu skólastarfi. Grunnþættir í menntun eru: Læsi í víðum skilningi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti og sköpun.
Grunnþættirnir eru skilgreindir í sameiginlegum inngangskafla í aðalnámskrá leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Þeir tengjast öllum námsgreinum og námsbrautum og eru leiðarljós í almennri menntun og starfsháttum framhaldsskóla.
Í nýrri aðalnámskrá framhaldsskóla er m.a. fjallað um inntak og skipulag náms og kennslu. Í aðalnámskrá er öllu námi í framhaldsskóla skipað á fjögur hæfniþrep sem skarast annars vegar við grunnskólastig og hins vegar við háskólastig. Með þrepunum er lýst stigvaxandi kröfu um þekkingu, leikni og hæfni nemenda í átt til sérhæfingar og aukinnar menntunar. Námslok námsbrauta eru tengd við hæfniþrep. Lokamarkmið námsbrauta kallast hæfniviðmið og segja til um þá hæfni sem stefnt er að nemendur búi yfir við námslok. Við uppbyggingu námsbrauta skulu framhaldsskólar fylgja reglum ráðuneytis en þær birtast meðal annars í almennum hluta aðalnámskrár.
Samkvæmt lögum um framhaldsskóla nr. 92/2008, færist ábyrgð á námskrárgerð í auknum mæli til framhaldsskólanna. Þeim er nú falið að gera tillögur um fyrirkomulag, samhengi og inntak náms í samræmi við viðmið, sniðmát og reglur um gerð námsbrautarlýsinga. Með þessu fá einstakir framhaldsskólar aukið umboð til að byggja upp nám sem tekur mið af sérstöðu skóla, þörfum nemenda, nærsamfélags og atvinnulífs. Þetta veitir skólum tækifæri til að bregðast markvisst við þörfum nemenda, samfélags og atvinnulífs, niðurstöðum rannsókna og gæðaeftirlits. Tillögur um námsbrautir þurfa staðfestingu ráðuneytis til að verða hluti af aðalnámskrá framhaldsskóla.
Á framhaldsskólastigi verður tekið upp nýtt einingamatskerfi, framhaldsskólaeiningar sem veitir möguleika á að meta vinnu nemenda í öllu námi. Framhaldsskólaeining (fein.) er mælikvarði á vinnuframlag nemenda í framhaldsskólum óháð því hvort námið er verklegt eða bóklegt og hvort það fer fram innan skóla eða utan. Hver eining samsvarar u.þ.b. þriggja daga vinnu nemenda (6-8 klst/dag).
Ráðuneytið hvetur framhaldsskóla og alla hagsmunaaðila til að kynna sér vel nýja aðalnámskrá og hefja vinnu við innleiðingu hennar og vonast til góðs samstarfs við skólasamfélagið í þeirri vinnu.
Nýjar aðalnámskrár fyrir leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla eru aðgengilegar á vefsíðu ráðuneytisins, http://www.menntamalaraduneyti.is/utgefid-efni/namskrar/