Hoppa yfir valmynd
6. september 2011 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Til grunnskóla vegna nýrrar aðalnámskrár grunnskóla

Í framhaldi af setningu nýrra laga árið 2008 um leikskóla, nr. 90/2008, grunnskóla, nr. 91/2008 og framhaldsskóla, nr. 92/2008 hefur mennta- og menningarmálaráðuneyti unnið að innleiðingu þeirrar menntastefnu sem þar er mörkuð. Undirstaða þeirrar vinnu er útgáfa nýrra aðalnámskráa fyrir skólastigin þrjú sem hafa nú verið staðfestar af ráðherra og birtar með auglýsingu í Stjórnartíðindum.

Í framhaldi af setningu nýrra laga árið 2008 um leikskóla, nr. 90/2008, grunnskóla, nr. 91/2008 og framhaldsskóla, nr. 92/2008 hefur mennta- og menningarmálaráðuneyti unnið að innleiðingu þeirrar menntastefnu sem þar er mörkuð. Undirstaða þeirrar vinnu er útgáfa nýrra aðalnámskráa fyrir skólastigin þrjú sem hafa nú verið staðfestar af ráðherra og birtar með auglýsingu í Stjórnartíðindum.

Í aðalnámskrám eru skilgreindir sex grunnþættir í menntun sem eiga sér stoð, hver með sínum hætti, í löggjöf fyrir leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Grunnþættirnir snúast um læsi á samfélag, menningu, umhverfi og náttúru, einnig um framtíðarsýn, getu og vilja til að hafa áhrif og taka virkan þátt í að viðhalda samfélagi sínu, breyta því og þróa.  Þeim er ætlað að undirstrika meginatriði í almennri menntun og stuðla að meiri samfellu í öllu skólastarfi. Grunnþættir í menntun eru: Læsi í víðum skilningi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti og sköpun.

Grunnþættirnir eru skilgreindir í sameiginlegum inngangskafla í aðalnámskrá leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Þeir tengjast öllum námsgreinum grunnskóla og eru leiðarljós í almennri menntun og starfsháttum ásamt lögbundnum áhersluþáttum, m.a. sjálfsvitund, siðgæðisvitund, félagsvitund, borgaravitund og félagsfærni.

Ný aðalnámskrá grunnskóla skipar lögbundnum námsgreinum á námssvið sem hér segir: Erlend tungumál, list- og verkgreinar, náttúrugreinar, skólaíþróttir, samfélagsgreinar og upplýsinga- og tæknimennt.  Auk þess eru sérstakar ráðstöfunarstundir skóla í 1.−7. bekk og val nemenda í 8.−10. bekk. Kynnt er ný viðmiðunarstundaskrá sem veitir skólum meiri sveigjanleika í skipulagi skólastarfs. Ein helsta breytingin er að val nemenda á unglingastigi verður í 8.-10. bekk verður allt að fimmtungur námstímans. Nú er unnið að gerð námsgreinahluta aðalnámskrár grunnskóla og stefnt er að útgáfu þeirra fyrir lok þessa skólaárs.

Í grunnskóla skal leggja mat á hæfni nemenda innan hvers námssviðs og á það við jafnt í bóklegu námi, verknámi og listnámi. Í aðalnámskránni er kynntur nýr matskvarði með fjórum flokkum, A−D. Matskvarðinn er tvískiptur, annars vegar kvarði fyrir mat á hæfni á hverju námssviði og hins vegar mat á lykilhæfni við lok grunnskóla. Viðmið í námsmati innan hvers námssviðs eða hverrar námsgreinar verða skilgreind nánar í námsgreinahlutanum. Matskvarðann ber að nota við brautskráningu nemenda úr grunnskóla. Einnig má nota hann við lok 4. og 7. bekkjar og almennt í námsmati grunnskóla. Kvarðann má laga að skólanámskrá hvers skóla og aðstæðum hverju sinni.

Ráðgert er að aðalnámskrá grunnskóla verði fylgt eftir af hálfu ráðuneytisins í haust, m.a. með kynningum, útgáfu þemahefta um grunnþætti í menntun, útfærslu á námsmati við lok grunnskóla, þróunarstarfi og endurmenntun. 
 
Ráðuneytið hvetur grunnskóla og alla hagsmunaaðila til að kynna sér vel nýja aðalnámskrá  og hefja vinnu við  innleiðingu hennar og vonast til góðs samstarfs við skólasamfélagið í þeirri vinnu.

Nýjar aðalnámskrár fyrir leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla eru aðgengilegar á vefsíðu ráðuneytisins, http://www.menntamalaraduneyti.is/utgefid-efni/namskrar/

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta