Íslandsmet! Erlendir ferðamenn í fyrsta sinn yfir 100 þúsund í einum mánuði
Samkvæmt talningum Ferðamálastofu voru erlendir ferðamenn í ágúst 101.841. Erlendir ferðamenn hafa aldrei áður farið yfir 100 þúsund í einum mánuði og eru þeir nú helmingi fleiri en þeir voru í ágústmánuði 2002.
Erlendir ferðamenn í ágústmánuði voru um 12 þúsund fleiri en í sama mánuði á síðasta ári og nemur aukningin 13,7% milli ára.
Þjóðverjar, Bandaríkjamenn og Frakkar vel ríflega þriðungur ferðamanna
Af einstaka þjóðernum voru flestir ferðamenn í ágúst frá Þýskalandi (13,7%), Bandaríkjunum (13,6%) og Frakklandi (10,2%). Ferðamenn frá Bretlandi (6,9%), Danmörku (5,9%), Ítalíu (5,6%), Spáni (5,4%), Noregi (5,3%) og Svíþjóð (4,5%) fylgdu þar á eftir.
18% fjölgun ferðamanna frá áramótum
Það sem af er ári hafa 406.484 erlendir ferðamenn farið frá landinu eða 62.211 fleiri en á sama tímabili í fyrra en um er að ræða 18,1% aukningu milli ára. Ferðamönnum hefur fjölgað milli ára frá öllum mörkuðum. N-Ameríkanar hafa að talsverðu leyti borið uppi aukningu ársins en þeim hefur fjölgað um 51,6% frá því í fyrra, Norðurlandabúum hefur fjölgað um 15,9%, Mið- og S-Evrópubúum um 12,7%, Bretum um 8,9% og ferðamönnum frá öðrum löndum um 12,3%.