Samstarfssamningur um vottun fjármálaráðgjafa
Samningur um vottun fjármálaráðgjafa var undirritaður í dag. Verkefnið er samstarfssamningur efnahags- og viðskiptaráðuneytis, Háskólans á Bifröst, viðskiptafræðideildar Háskóla Íslands, Háskólans í Reykjavík, Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja og Samtaka fjármálafyrirtækja (SFF), sem jafnframt hafa leitt verkefnið.
Markmiðið með vottun fjármálaráðgjafa er að samræma þær kröfur sem gerðar eru til þeirra þjónustufulltrúa viðskiptabanka og sparisjóða sem eiga aðild að SFF og sinna fjármálaráðgjöf til einstaklinga. Vottun fjármálaráðgjafa á Íslandi á rætur að rekja til þeirrar þróunar sem átt hefur sér stað á þessu sviði á Norðurlöndum, í Evrópu og víðar.
Þann 27. september hefst nám til undirbúnings vottunar fjármálaráðgjafa. Fyrsti hópurinn mun samanstanda af 40 starfsmönnum þeirra viðskiptabanka og sparisjóða sem eiga aðild að SFF. Námið fer fram í Opna háskólanum í Reykjavík en áætlað umfang námsins er um 160 - 180 kennslustundir. Að námi loknu fær starfsmaður afhent vottunarskírteini sem mun fylgja honum, færi hann sig á milli fjármálafyrirtækja.
Samstarfssamningurinn sem undirritaður er í dag hefur það markmið að auka áreiðanleika og trúverðugleika vottunar.
Birna Einarsdóttir formaður Samtaka fjármálafyrirtækja;
„Þetta er mikilvægur áfangi í því að auka enn frekar gæði bankaþjónustu á Íslandi með aukinni þekkingu þess starfsfólks sem sinnir ráðgjöf til viðskiptavina. Við leggjum upp með metnaðarfullt samstarfsverkefni og tel ég að aðkoma háskólasamfélagins og ráðuneytisins sýni víðtækan skilning á því að nauðsynlegt er að auka fræðslu og efla þessa þjónustu. Við höfum átt gott samstarf við Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja og með þessu skrefi er lagður grunnur að stóraukinni fræðslu fyrir starfsmenn fjármálafyrirtækja sem skilar sér í traustara og betra bankakerfi fyrir viðskiptavini.
Á grunni samstarfssamnings mun starfa sérstök vottunarnefnd sem fer með æðsta vald í faglega hluta vottunarinnar. Í henni eiga sæti:
- Hrefna Sigríður Briem formaður, viðskiptadeild HR
- Gylfi Magnússon, viðskiptafræðideild HÍ
- Stefán Kalmansson, Háskólanum á Bifröst
- Harpa Theodórsdóttir, efnahags- og viðskiptaráðuneyti
- Dröfn Guðmundsdóttir, formaður stýrihóps vottunar
Samstarfssamningurinn gerir ráð fyrir samvinnu milli háskólanna við gerð prófefnislýsingar og við þróun hæfniviðmiða. Til að stýra þeirri vinnu er í samstarfssamningnum sett upp sérstakt fagráð en í því sitja:
- Þórólfur Matthíasson HÍ, þjóðhagfræði
- Vilhjálmur Bjarnason HÍ, fjármál og fjármálamarkaðir
- Jón Þór Sturluson HR, fjármál einstaklinga
- Sigurbjörn Einarsson Háskólinn á Bifröst, sparnaður, útlán og greiðslumiðlun
- Sigríður Rafnar Pétursdóttir Háskólanum á Bifröst, lög og reglugerðir
- Jón Ólafsson Háskólanum á Bifröst, siðfræði
Allar nánari upplýsingar veitir Sigrún Edda Eðvarðsdóttir, verkefnisstjóri í síma 863 3326
Myndatexti: frá vinstri. Friðrik Már Baldursson forseti viðskiptadeildar Háskólans í Reykjavík, Bryndís Hlöðversdóttir rektor Háskólans á Bifröst, Friðbert Traustason formaður SSF, Birna Einarsdóttir formaður SFF, Helga Jónsdóttir ráðuneytisstjóri efnahags- og viðskiptaráðuneytisins, Gylfi Magnússon dósent við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands