Hoppa yfir valmynd
14. september 2011 Matvælaráðuneytið

Iðnaðarráðherra í Noregi og Póllandi

Stytta af Ingólfi Arnarsyni
Stytta af Ingólfi Arnarsyni

Katrín Júlíusdóttir hélt í morgun til Noregs. Á fimmtudag mun hún afhenda norsku þjóðinni að gjöf fyrsta eintak sérstakrar hátíðarútgáfu Morkinskinnu og um helgina verður hún viðstödd hátíðahöld vegna 50 ára afmælis styttu Ingólfs Arnarsonar í Hrífudal í Dalsfirði. Frá Noregi liggur leiðin síðan til Póllands en í byrjun næstu viku fer þar fram óformlegur fundur orkuráðherra ríkja Evrópu.

Þjóðargjöf til Noregs – afhending Morkinskinnu

Næstkomandi fimmtudag verður norsku þjóðinni afhent fyrsta eintak sérstakrar hátíðarútgáfu Morkinskinnu,sem er hluti af þjóðargjöf Íslendinga til Norðmanna í tilefni 100 ára afmælis endurreisnar konungsveldis þeirra árið 2005.

Iðnaðarráðherra, Katrín Júlíusdóttir, mun afhenda ritið á málþingi sem sendiráð Íslands efnir til í samstarfi við Oslóarháskóla og er það menningarmálaráðherra Noregs, Anniken Huitfeldt sem veitir ritinu viðtöku. Á málþinginu munu m.a. íslenskir og norskir fræðimenn fjalla um konungasögurnar.

Árið 2005 var 100 ára afmæli konungdæmis í Noregi. Af því tilefni ákvað ríkisstjórn Íslands að sérstök útgáfa konungasagnanna, fjórar helstu sögurnar, yrðu gefnar út í sérstöku bandi og 500 eintök afhent norsku þjóðinni. Hinu íslenska fornritafélagi var falið að annast útgáfu sagnanna fyrir hönd íslenska ríkisins. 

Fyrsta sagan, Sverris saga,kom út og var afhent árið 2007 á þjóðhátíðardegi Norðmanna.

Önnur sagan er Morkinskinna sem nú kemur út og verður afhent í Osló næstkomandi fimmtudag, en ráðgert er að síðari sögurnar tvær, Böglungasögur og Hákonar saga Hákonarsonar komi út á næsta ári.

Sögurnar eru þýðingarmikilll vitnisburður um þau rótgrónu tengsl sem voru milli Íslands og Noregs á miðöldum og eru hluti af  þeim sameiginlega menningararfi sem  ríkin byggja á enn þann dag í dag.

Hátíðahöld vegna 50 ára afmælis styttu Ingólfs Arnarsonar í Hrífudal í Dalsfirði, Noregi

Afsteypa af styttu Einars Jónssonar af Ingólfi Arnarsyni sem stendur á Arnarhóli, var afhent Norðmönnum 17. september 1961 af hálfu þáverandi forsætisráðherra, Bjarna Benediktssonar  Hún stendur í Hrífudal í Dalsfirði (Rivedal) sem er fæðingarstaður landnámsmannsins.

Hátíðahöld verða í Hrífudal helgina 16.-18.september í tilefni af því að 50 ár eru liðin frá því að gjöfin var afhent og verður iðnaðarráðherra, Katrín Júlíusdóttir, fulltrúi íslenskra stjórnvalda við hátíðahöldin.

Efnt var til hópfarar Íslendinga til Noregs þegar styttan var afhent og skráðu um 150 - 160 Íslendingar sig til þátttöku í siglingunni með Heklu. Á vinstri hlið fótstalls styttunnar er letrað: „Ingólfur Arnarson frá Dalsfirði, fyrsti landnámsmaður á Íslandi“, en á hægri hliðina: „Gjöf frá Íslendingum. Vin sínum skal maðr vin vera“.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta