Hoppa yfir valmynd
15. september 2011 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Degi íslenskrar náttúru fagnað víða um land á morgun

Hvönn og foss í íslenskri náttúru.
Hvönn og foss í íslenskri náttúru.

Dagur íslenskrar náttúru verður haldinn hátíðlegur á morgun, föstudaginn 16. september. Efnt verður til margra viðburða víða um land í tilefni dagsins, þar sem almenningur, skólabörn, náttúrufræðingar, fjölmiðlar, háskólafólk, ráðamenn, sendiherrar, sveitarstjórnarfólk og fjöldi  annarra koma við sögu.

Umhverfisráðherra mun veita fjölmiðlaverðlaun í tilefni dagsins, en ætlunin er að veita slík verðlaun árlega hér eftir.

Eftirtalin eru tilnefnd til verðlaunanna nú:

  • Morgunblaðið fyrir vandaða og ítarlega umfjöllun um áhrif loftslagsbreyting á íslenska náttúru
  • Ragnar Axelsson ljósmyndari fyrir að beina sjónum að náttúruvernd og samspili manns og náttúru í verkum sínum.
  • Steinunn Harðardóttir stjórnandi útvarpsþáttarins Út um græna grundu á Rás 1 fyrir umfjöllun um íslenska náttúru, umhverfið og ferðamál
  • Svavar Hávarðsson blaðamður á Fréttablaðinu fyrir ítarlega umfjöllun um mengun sem ógnar náttúru og fólki

Ný háskólastofnun, Líf- og umhverfisvísindastofnun, tekur formlega til starfa við Háskóla Íslands kl. 14:00. Í framhaldi af setningarathöfn stofnunarinnar verður efnt til málþings um gildi íslenskrar náttúru og hefst það kl. 15:00 í Öskju.

Erlendir sendiherrar munu ekki láta sitt eftir liggja því þeir munu vinna að endurbótum á gönguleið að Leiðarenda við Bláfjallaafleggjara. Er áætlað að þeir verði við vinnu frá kl. 13:30 til 16:30 en umhverfisráðherra, Svandís Svavarsdóttir hyggst koma við hjá þeim og leggja hönd á plóg um kl. 15:00.

Almenningi gefst kostur á að taka til hendinni við náttúruvernd, nánar tiltekið við viðhald göngustíga á leiðinni upp Esjuna. Sjálfboðaliðar eru velkomnir til starfa kl. 13:00 – 17:00.

Sem dæmi um viðburði má nefna að á Hvanneyri verður boðið upp á göngu um fuglaverndunarsvæðið í Andakíl en umhverfisráðuneytið undirbýr nú tilnefningu svæðisins á lista Ramsarsamningsins um vernd votlendis. Þá verður boðið upp á fyrirlestra um líffræðilega fjölbreytni í Borgum á Akureyri, Surtseyjarstofa í Vestmannaeyjum verður opin og Landgræðslan býður í göngu- og kynnisferð um uppgræðslusvæðið á Hólasandi norðan Mývatns.

Hér er fátt eitt nefnt en ítarlega dagskrá Dags íslenskrar náttúru er að finna á vef umhverfisráðuneytisins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta