Hoppa yfir valmynd
16. september 2011 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp umhverfisráðherra við stofnun Líf- og umhverfisvísindastofnunar HÍ

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra og starfandi menntamálaráðherra flutti eftirfarandi ávarp við formlega stofnun Líf- og umhverfisvísindastofnunar HÍ sem fram fór í Öskju á Degi íslenskrar náttúru þann 16. september 2011. 

Rektor Háskóla Íslands – ágætu gestir,

“Þú stóðst á tindi Heklu hám
og horfðir yfir landið fríða,
þar sem um grænar grundir líða
skínandi ár að ægi blám;”

Þannig hefst kvæði Jónasar Hallgrímssonar sem hann orti til franska náttúruvísindamannsins Páls Gaimards árið 1839 fyrir samsæti sem Íslendingar í Kaupmannahöfn héldu honum til heiðurs. Gaimard var þekktur fyrir vísindastörf á Norðurslóðum en hann stýrði meðal annars rannsóknarleiðangri um Ísland og Grænland árið 1836. Sjö vísindamenn, 48 hestar og fjöldi íslenskra aðstoðarmanna voru með í för þegar leiðangurinn fór hringinn í kringum Ísland. Afraksturinn var vísindarit í tólf bindum, Voyage en Islande et au Groënland sem á sínum tíma var sagt vera fullnaðar-rannsókn á eyjunum tveimur.

Til að gera langa sögu stutta var þar ákveðinn misskilningur á ferð.

Þvert á móti hafa menn á þeim tæplega tvöhundruð árum sem liðin eru frá leiðangri Gaimards gert sér æ betur ljóst að rannsóknarefnin á eyjunni okkar eru allt að því ótæmandi, ekki síst þegar kemur að náttúru og umhverfi.

Þetta helst í hendur við aukinn skilning okkar á mikilvægi náttúrunnar og umhverfisins. Eins og kvæði Jónasar endurspegla svo vel gegnir náttúra landsins lykilhlutverki í sjálfsmynd okkar sem þjóðar – í menningu okkar, efnahags- og atvinnulífi, ferðamennsku og afþreyingu. Í aldanna rás hefur íslensk náttúra gefið okkur kraft og veitt innblástur.

Íslenska þjóðin hefur frá örófi alda nýtt efnisleg gæði náttúrunnar og þannig lifað af í harðbýlu landi. Við erum stolt af því að sýna gestum þá fjársjóði sem náttúra okkar hefur að geyma, og stólum raunar efnahagslega á að þeir hafi aðdráttarafl.

Á alþjóðavísu stendur maðurinn frammi fyrir miklum áskorunum á sviði umhverfis- og náttúruvísinda, sennilega þeim stærstu sem hann hefur þurft að takast á við í aldanna rás.

Við þekkjum hina erfiðu og flóknu glímu við loftslagsbreytingar. Við verðum að varðveita líffræðilega fjölbreytni jarðarinnar og hindra landeyðingu og útrýmingu skóga. Við verðum að stemma stigu við efnamengun og tryggja ferskt vatn á jörðinni. Síðast en ekki síst verðum við að tryggja að vistkerfi náttúrunnar séu í stakk búin til að veita þá þjónustu sem líf okkar allra hvílir á. Þessi verkefni blasa nú við heiminum – heimi sem Ísland er svo sannarlega hluti af – og hagsæld okkar og lífsgæði eru beintengd því að lausnir á þessum vandamálum finnist.

Þess vegna er gríðarlega mikilvægt að háskólasamfélagið beini rannsóknum sínum að náttúrunni og umhverfinu, ekki síst hér heima við. Því er mér sem ráðherra umhverfis- og menntamála mikill heiður og gleðiefni að fá tækifæri til að vera viðstödd nú þegar Líf- og umhverfisvísindastofnun tekur formlega til starfa á aldarafmæli Háskóla Íslands. Það er sérstaklega við hæfi að þetta gerist sama dag og Íslendingar halda Dag íslenskrar náttúru hátíðlegan í fyrsta sinn.

 

Það felst mikil von í því að sett sé á laggirnar háskólastofnun á sviði líf- og umhverfisvísinda. Henni er meðal annars ætlað að efla rannsóknir og þjálfun í vísindalegum vinnubrögðum, stuðla að samstarfi við innlenda og erlenda vísindamenn og veita upplýsingar og ráðgjöf varðandi málefni sem snerta þessi fræðasvið. Háskóli Íslands getur svo sannarlega verið stoltur yfir slíku framtaki á aldarafmæli sínu.

Það er ósk mín og von að Líf- og umhverfisvísindastofnun muni í framtíðinni gegna lykilhlutverki í rannsóknum á náttúru Íslands og þannig stuðla að því að stefnumótun stjórnvalda í málefnum sem þessum byggi á traustum vísindalegum grunni.

Góðir gestir,

Í upphafi kvæðis Jónasar til Páls Gaimards dásamar skáldið fegurð landsins með tignarlegum fjöllum og tindrandi vatnsföllum, umvöfðu hafinu bláa. Flest okkar þekkjum við seinni hlutann þó betur en upphafið. Og þar er enginn misskilningur á ferð:

“Vísindin efla alla dáð,
orkuna styrkja, viljann hvessa,
vonina glæða, hugann hressa,
farsældum vefja lýð og láð;”

Kæra háskólafólk,

Megi stofnun Líf- og umhverfisvísindastofnunar Háskóla Íslands hvetja ykkur sem mest og best til dáða okkur öllum til farsældar.

Innilega til hamingju með daginn.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta