Breytt fyrirkomulag umsókna um styrki og úthlutanir þeirra á safnliðum á fjárlögum
Á árinu 2012 verða gerðar breytingar á úthlutun styrkja til félaga, samtaka og einstaklinga á þann veg að Alþingi hættir úthlutunum á styrkjum til ýmissa verkefna til félaga, samtaka og einstaklinga eins og verið hefur. Alþingi mun áfram ákvarða umfang styrkja til einstakra málaflokka en úthlutun þeirra mun flytjast til ráðuneyta, lögbundinna sjóða, menningarráða landshluta eða annarra sem sjá um og bera ábyrgð á viðkomandi málaflokkum.
Ráðuneytin munu einungis úthluta styrkjum til verkefna sem falla undir málefnasvið þeirra að svo miklu leyti sem þau falla ekki undir lögbundna sjóði eða samninga, svo sem menningarsamninga eða vaxtarsamninga. Því er mikilvægt að umsækjendur kynni sér vel hvaða ráðuneyti ber ábyrgð á þeim málaflokki sem verkefni umsækjanda um styrk fellur undir.
- Umsóknarfrestur er til 12. desember og úthlutað er einu sinni á ári eða eigi síðar en 31. janúar ár hvert.
- Umsóknareyðublað
- Reglur um úthlutun
Verkefni eftir ráðuneytum:
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti:
- Stuðningur við áhugahópa og fagleg starf.
- Veittir eru styrkir til að styðja við aðila utan ríkisstofnana sem starfa á verkefnasviði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis og njóta ekki framlaga á fjárlögum.
Velferðarráðuneyti:
- Styrkir til félagasamtaka.
Veittir eru styrkir til félagasamtaka sem starfa á verkefnasviði ráðuneytisins og njóta ekki framlaga á fjárlögum.
- Verkefnastyrkir á sviði velferðarmála.
Veittir eru styrkir til félagasamtaka til að hrinda í framkvæmd verkefnum og aðgerðum sem falla að verkefnasviði ráðuneytisins og njóta ekki framlaga á fjárlögum.
Umhverfisráðuneyti:
- Verkefnastyrkir á sviði umhverfismála
Veittir eru styrkir til faglegrar uppbyggingar á sviði umhverfismála með því að styrkja tiltekin verkefni. Einnig eru veittir styrkir sem stuðla að þátttöku í stefnumarkandi alþjóðlegum ráðstefnum og fundum um umhverfismál, einkum þeim sem ráðuneytið sjálft hefur aðkomu að. Ráðuneytið mun á árinu 2012 leggja áherslu á verkefni á sviði umhverfis- og náttúruverndar.
- Styrkir til frjálsra félagasamtaka
Veittir eru rekstrarstyrkir til frjálsra félagasamtaka á sviði umhverfismála og til að stuðla að opnum og frjálsum skoðanaskiptum um umhverfismál og til að efla almenna vitund um gildi umhverfis- og náttúruverndar.
Upplýsingar um sjóði sem úthlutað er úr á vegum ráðuneytanna er að finna á heimasíðu viðkomandi ráðuneytis.
Mennta- og menningarmálaráðuneyti:
- Styrkir á sviði listgreina
Veitt eru framlög til félagasamtaka og annarra aðila sem starfa á sviði lista og eru ekki aðilar að menningarsamningum né hafa aðgang að sjóðum.
- Styrkir á sviði menningararfs
Veitt eru framlög til félagasamtaka og annarra aðila sem starfa að varðveislu menningarminja og eru ekki aðilar að menningarsamningum né hafa aðgang að sjóðum.
- Styrkir á sviði íþrótta- og æskulýðsmála
Veitt eru framlög til félagasamtaka og annarra aðila sem starfa við íþrótta- og æskulýðsmál, skólabúðir o.fl., og hafa ekki aðgang að sjóðum á þessu sviði.
- Styrkir til uppbyggingar landsmótsstaða
Veitt eru framlög til að styðja við uppbyggingu á landsmótssvæðum í samstarfi við sveitarfélög og fleiri aðila.
- Menningarsamningar
Hlutverk menningarráða er að vinna að stefnumótun um menningarmál hvert fyrir sinn landshluta, standa fyrir öflugu þróunarstarfi í menningarmálum og menningartengdri ferðaþjónustu, úthluta fjármagni til menningarverkefna og hafa eftirlit með framkvæmd þeirra. Í gildi eru samningar mennta- og menningarmálaráðuneytis og iðnaðarráðuneytis við samtök sveitarfélaga á Austurlandi, Norðurlandi eystra, Norðurlandi vestra, Suðurlandi, Suðurnesjum, Vestfjörðum og Vesturlandi. Sjá nánar á Menningarráð Austurlands, Menningarráð Eyþings, Menningarráð Norðurlands vestra, Menningarráð Suðurlands, Menningarráð Suðurnesja, Menningarráð Vestfjarða og Menningarráð Vesturlands.
Sjóðir
Óbreytt fyrirkomulag verður á úthlutun úr lögbundnum sjóðum mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Hér á eftir er yfirlit um fyrrgreinda sjóði:
- Listamannalaun/starfslaun listamanna
Starfslaun listamanna eru veitt úr sex sjóðum: Launasjóði hönnuða, launasjóði myndlistarmanna, launasjóði rithöfunda, launasjóði sviðslistafólks, launasjóði tónlistarflytjenda og launasjóði tónskálda.
Sjá nánar á listamannalaun.is.
- Barnamenningarsjóður
Hlutverk hans er að styrkja verkefni á sviði barnamenningar sem unnin eru fyrir börn og/eða með virkri þátttöku þeirra.
- Bókmenntasjóður
Hlutverk hans er að efla íslenskar bókmenntir og bókaútgáfu. Sjóðurinn rækir hlutverk sitt með því að styrkja útgáfu frumsaminna íslenskra skáldverka og vandaðra rita sem eru til þess fallin að efla íslenska menningu og útgáfu vandaðra erlendra bókmennta á íslenska tungu, stuðla að kynningu á íslenskum bókmenntum hér á landi og erlendis og sinna öðrum verkefnum er falla undir verksvið stjórnar sjóðsins. Sjá nánar á bok.is.
- Fornleifasjóður
Hlutverk hans er að stuðla að varðveislu og rannsóknum á fornleifum og forngripum. Stjórn sjóðsins úthlutar styrkjum til eftirtalinna verkefna: fornleifarannsókna, forvörslu, minjaverndar, fornleifaskráningar og annarra verkefna sem stjórn sjóðsins metur styrkhæf.
- Húsafriðunarsjóður
Hlutverk hans er að veita styrki til viðhalds og endurbóta á friðuðum húsum og mannvirkjum. Heimilt er að veita styrki til viðhalds annarra húsa en friðaðra sem að dómi húsafriðunarnefndar hafa menningarsögulegt eða listrænt gildi. Sjóðnum ber að stuðla að byggingarsögulegum rannsóknum og útgáfu rita um þær. Sjá nánar á husafridun.is.
- Íþróttasjóður
Hlutverk sjóðsins er að veita framlög til sérstakra verkefna á vegum íþróttafélaga og samtaka þeirra sem miða að því að bæta aðstöðu til íþróttaiðkunar, útbreiðslu- og fræðsluverkefna, íþróttarannsókna og verkefna skv. 13. gr. íþróttalaga þar sem segir að ráðherra sé heimilt að eiga aðild að samningum um stofnun og starfsemi íþróttamiðstöðva í samvinnu við sveitarfélög og íþróttasamtök, enda miðist þjónusta stöðvanna við landið allt.
- Kvikmyndasjóður
Hlutverk hans er að efla íslenska kvikmyndagerð með fjárhagslegum stuðningi. Kvikmynd, sem styrkt er af Kvikmyndamiðstöð Íslands, skal hafa íslenska menningarlega skírskotun nema sérstök menningarleg rök leiði til annars. Veittir eru styrkir til leikinna kvikmynda í fullri lengd til sýninga í kvikmyndahúsum, til stuttmyndagerðar, til heimildamyndagerðar og til leikins sjónvarpsefnis. Sjá nánar á kvikmyndamidstod.is.
- Launasjóður fræðiritahöfunda
Meginhlutverk sjóðsins er að auðvelda samningu bóka, og verka í stafrænu formi, til eflingar íslenskri menningu. Rétt til að sækja um starfslaun úr sjóðnum hafa höfundar alþýðlegra fræðirita, handbóka, orðabóka og viðamikils upplýsingaefnis á íslensku í ýmsu formi. Rannsóknamiðstöð Íslands sér um rekstur og vörslu sjóðsins. Sjá nánar á rannis.is.
- Listskreytingasjóður ríkisins
Hlutverk hans er að veita styrki til listskreytinga opinberra bygginga sem fullbyggðar voru við gildistöku laga um sjóðinn, umhverfis þeirra og annarra útisvæða á forræði ríkis og sveitarfélaga.
- Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar
Kynningarmiðstöðin er tengiliður íslensks myndlistarsamfélags við alþjóðlegan myndlistarvettvang. Kynningarmiðstöðin rennir stoðum undir samstarf innlendra og erlendra listamanna með það að leiðarljósi að auka hróður íslenskrar myndlistar erlendis og veitir styrki á grundvelli umsókna. Sjá nánar á cia.is.
- Safnasjóður
Hlutverk hans er að styrkja starfsemi safna. Öll söfn sem undir safnalög falla geta sótt um verkefnastyrki til sjóðsins. Höfuðsöfn og önnur söfn sem rekin eru af ríkinu geta ekki notið styrkja úrsjóðnum. Til þess að geta sótt um rekstrarstyrk þarf safn að uppfylla eftirtalin skilyrði: Safnið skal hafa sjálfstæðan fjárhag og vera stjórnað af forstöðumanni í a.m.k. hálfu starfi, safnið skal starfa eftir stofnskrá sem hlotið hefur staðfestingu safnaráðs og skal starfa eftir stefnu sem endurskoðuð er á fjögurra ára fresti, safnið skal rekið óaðfinnanlega að mati safnaráðs og fjárhagsgrundvöllur þess skal vera tryggður, safnið skal vera opið almenningi daglega á auglýstum tíma a.m.k. þrjá mánuði á ári, safnið skal bjóða upp á safnfræðslu eftir því sem við verður komið, safnið skal skrá safngripi eftir viðurkenndu skráningarkerfi og safnið skal fylgja viðurkenndum alþjóðlegum siðareglum safna.
Sjá nánar á safnarad.is.
- Styrkir til starfsemi atvinnuleikhópa
Samkvæmt leiklistarlögum gerir leiklistarráð tillögu til mennta- og menningarmálaráðuneytisins um úthlutun fjár til stuðnings atvinnuleikhópum.
- Styrkir til starfsemi áhugaleikhópa
Veittir eru styrkir til leiksýninga á íslenskum eða erlendum verkum, til flutnings á skemmtidagskrám eða söngleikjum og einnig til vandaðra bókmenntakynninga og námskeiðahalds. Sjá nánar á leiklist.is.
- Tónlistarsjóður
Hlutverk hans er að efla íslenska tónlist og stuðla að kynningu á íslenskum tónlistarmönnum og tónsköpun þeirra. Sjóðurinn skiptist í tvær deildir, tónlistardeild og markaðs- og kynningardeild.
Tónlistardeild veitir styrki til almennrar tónlistarstarfsemi, svo sem tónlistarflutnings, tónlistarhópa, tónlistarhátíða, rannsókna og skráningar á tónlist, varðveislu tónlistar og annarrar tónlistarstarfsemi.
Markaðs- og kynningardeild veitir m.a. styrki til markaðssetningar og kynningarverkefna í tengslum við íslenska tónlist og tónlistarmenn og til annarra verkefna sem miða að kynningu á íslenskri tónlist og tónlistarmönnum innan lands og utan.Að jafnaði er hvorki gert ráð fyrir styrkveitingum til rekstrar og umsýslu samtaka, fyrirtækja og stofnana, sem hljóta regluleg rekstrarframlög, né til verkefna eða viðburða sem þegar hafa átt sér stað. Styrkir úr sjóðnum skulu veittir til ákveðinna verkefna og að jafnaði ekki lengur en til eins árs í senn.
- Æskulýðssjóður
Hlutverk hans er að styrkja verkefni á vegum æskulýðsfélaga og æskulýðssamtaka, m.a sérstök verkefni sem unnin eru fyrir börn og ungmenni og/eða með virkri þátttöku þeirra, þjálfun forystufólks, leiðbeinenda og sjálfboðaliða, nýjungar og þróunarverkefni og samstarfsverkefni æskulýðsfélaga og æskulýðssamtaka. Hvorki er heimilt að styrkja árvissa eða fasta viðburði í félagsstarfi, svo sem þing, mót eða þess háttar viðburði, né ferðir hópa.