Ráðherra kynnir stöðu efnahagsmála fyrir forystufólki í dönsku efnahagslífi
Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, flutti á þriðjudag erindi um stöðu efnahagsmála á Íslandi hjá Institut for selskabsledelse í Kaupmannahöfn. Í erindinu gerði ráðherra grein fyrir þeim árangri sem náðst hefði í endurreisn efnahagslífsins frá 2008 og farsælum lokum samstarfsáætlunarinnar við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Ráðherra rakti þau verkefni sem framundan væru við að efla samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs og auka á fjárfestingu og nýsköpun. Þá ræddi ráðherra hvaða lærdóma mætti draga af reynslu Íslands í þeirri viðureign sem enn stendur við óstöðugleika á fjármálamörkuðum um allan hinn vestræna heim. Ráðherra svaraði spurningum að loknu erindi, meðal annars um stöðu Icesave-málsins.