Áætlun um losun gjaldeyrishafta – höftin gildi lengst til ársloka 2013
Alþingi samþykkti á laugardag frumvarp efnahags- og viðskiptaráðherra um breytingar á lögum um gjaldeyrismál og tollalögum. Lagasetningin er liður í áætlun stjórnvalda um losun gjaldeyrishafta, sem innleidd voru í kjölfar bankahruns í október 2008.
Til þess að tryggja að afnám gjaldeyrishafta ógni ekki fjármálastöðugleika, felur löggjöfin í sér að gjaldeyrishöftin gilda til ársloka 2013. Ef aðstæður leyfa verða höftin afnumin fyrr. Frumvarpið tók breytingum í meðferð Alþingis, en samkvæmt áætluninni stóð upphaflega til að gjaldeyrishöftin yrðu heimil til loka árs 2015. Lagasetningin felur einnig í sér lögfestingu á reglum um gjaldeyrismál sem Seðlabanki Íslands hefur sett með samþykki efnahags- og viðskiptaráðherra.