Hoppa yfir valmynd
19. september 2011 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Víða komið við á Degi íslenskrar náttúru

Útikennsla í Ævintýraskógi
Útikennsla í Ævintýraskógi

Umhverfisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, hafði í nógu að snúast á Degi íslenskrar náttúru sem fagnað var um allt land á föstudag. Ráðherra tók þátt í útikennslustund í Kópavogi, afhenti fjölmiðlaverðlaun umhverfisráðuneytisins, var við formlega stofnun Líf- og umhverfisvísindastofnunar Háskóla Íslands og lagði hönd á plóg þar sem sendifulltrúar erlendra ríkja unnu við stígagerð að hellinum Leiðarenda við Bláfjallaveg.

Eftir viðtal í Morgunútvarpi Rásar 2 lá leið umhverfisráðherra í Kópavog, nánar tiltekið í sjálfan Ævintýraskóginn, útikennslustofu Kársnesskóla og Heilsuleikskólans Urðarhóls. Að þessu sinni voru tveir 7. bekkir við útinám í lundinum góða og aðstoðaði ráðherra þá við að mæla, tálga, vefa, sögugerð, lummuát, söng og gítarspil svo fátt eitt sé nefnt.   

Fjölmiðlaverðlun og ný háskólastofnun

Úr ævintýralegri útikennslu lá leiðin í hús Náttúrufræðistofnunar Íslands í Búrfellshrauni í Garðabæ þar sem hátíðardagskrá og afhending fjölmiðlaverðlauna umhverfisráðuneytisins fóru fram. Kór Menntaskólans við Hamrahlíð sá um tónlistarflutning undir stjórn Þorgerðar Ingólfsdóttur og frumflutti m.a. nýja útsetningu Atla Heimis Sveinssonar á lagi við ljóð Jónasar Hallgrímssonar, Minni Íslands. Umhverfisráðherra ávarpaði samkomuna sem og afmælisbarn dagsins, Ómar Ragnarsson en hápunktur samkomunar var þó þegar ráðherra veitti Ragnari Axelssyni, ljósmyndara á Morgunblaðinu fjölmiðlaverðlaun ráðuneytisins. Var Raxa fagnað af viðstöddum enda vel að verðlaununum kominn.

Raxi hlaut fjölmiðlaverðlaun umhverfisráðuneytisins.

Strax eftir hádegi lá leiðin í raunvísindahús Háskóla Íslands, Öskju, þar sem ný háskólastofnun, Líf- og umhverfisvísindastofnun HÍ var formlega ýtt úr vör. Flutti umhverfisráðherra ávarp við það tækifæri þar sem hún m.a. rifjaði tilkomu kvæðis Jónasar Hallgrímssonar þaðan sem einkunnarorð Háskóla Íslands, “Vísindin efla alla dáð”, eru fengin en kvæðið orti Jónas til franska náttúruvísindamannsins Paul Gaimards árið 1839. Í kjölfar formlegrar opnunar stóð hin nýja stofnun fyrir málþingi um íslenska náttúru þar sem flutt voru erindi um verðmæti íslenskrar náttúru, gildi hennar fyrir ferðamennsku og útivist og loks hagsæld og lífsgæði út frá náttúru landsins.

Sendiherrar í göngustígsgerð

Ráðherra gat þó ekki setið málþingið þar sem hún hafði mælt sér mót við nokkra erlenda sendiherra og sendifulltrúa sem stóðu í stórræðum við göngustígsgerð að hellinum Leiðarenda, sem er staðsettur við Bláfjallaveg Krísuvíkurmegin. Létu þeir rammíslenskt rok og vætu ekki aftra sér frá því að bera möl í stíginn og flytja mosa til að græða gönguslóða sem höfðu myndast utan aðalstígsins. Lauk vinnunni svo á því að Árni B. Stefánsson hellaáhugamaður fór með vinnuhópinn í skoðunarferð í Leiðarenda sjálfan.

Sendiherrar við göngustígsgerðÞrátt fyrir þétta dagskrá gat ráðherra þó ekki tekið þátt í nema broti af þeim aragrúa viðburða sem fóru fram um allt land í tilefni dagsins. Má þar nefna göngu- og skoðunarferðir um náttúruperlur víða um land, heimsóknir náttúrusérfræðinga í grunnskóla, opin hús í nokkrum stofnunum sem hafa náttúruna sem viðfangsefni, hreinsunarátak í hrauninu við Straumsvík, sjálfboðaliðastarf við göngustígagerð í Esjunni, ratleik í Grasagarði Reykjavíkur, opnun Örnefnasjár á netinu, fyrirlestra um íslenska náttúru, aukaaðalfund Leynifélagsins sem útvarpað var á samtengdum rásum ríkisútvarpsins, ljósmyndasýningu, jóganáttúrudans og svo mætti lengi telja.

Umhverfisráðuneytið þakkar öllum skipuleggjendum viðburða sitt framlag og vonar að dagurinn hafi verið þátttakendum gleðileg áminning um þau verðmæti sem felast í íslenskri náttúru.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta