Hoppa yfir valmynd
20. september 2011 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Torfajökulssvæðið verði tilnefnt til heimsminjaskrár UNESCO

Torfajökulssvæðið
Torfajökulssvæðið

Ríkisstjórnin samþykkti í morgun, að tillögu umhverfisráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra að bæta Torfajökulssvæðinu á yfirlitsskrá Íslands með tilnefningu til heimsminjaskrár UNESCO í huga. 

Torfajökulseldstöðin er einstök bæði á landsvísu og á heimsvísu. Hún er megineldstöð, með stærsta líparítsvæði landsins og innan öskjunnar er stærsta háhitasvæði landsins.  Mikill hluti gosmyndana varð til við gos í jökli og er þetta hugsanlega eitt stærsta samfellda svæði slíkra líparítmyndana í heimi. Eldvirkni innan Torfajökulseldstöðvarinnar á nútíma ber þess glögg merki að landrek er að brjótast inn í hana úr norðri.

Jarðhiti innan Torfajökulsöskjunnar er afar fjölbreyttur og mikið um fágæt jarðhitafyrirbæri. Þarna finnast volgrur, laugar, vatnshverir, goshverir, ölkeldur, kolsýruhverir og -laugar, gufuhverir, soðstampar, soðpönnur, gufuhitaðar laugar, leirhverir og leirugir vatnshverir, heit jörð með gufuaugum, brennisteinsþúfur, sortulækir og varmár. Önnur jarðhitasvæði eru mun fábreyttari.


Torfajökulssvæðið

Yfirborðsummyndun og veðrun liparíts er einkar fjölbreytt og mjög útbreidd sem skapar m.a. hina frægu litadýrð. Hátt í 50 yfirborðssteindir hafa verið skilgreindar á svæðinu. Hitakærar örverur tengdar jarðhitanum eru mjög fjölbreyttar og einstakar.

Torfajökulseldstöðin var að hluta til friðlýst árið 1979 með afmörkun svæðis sem kallast Friðland að Fjallabaki. Mikilvægt er að núverandi friðlandsmörk verði endurskoðuð þannig að þau nái yfir alla Torfajökulseldstöðina. Einnig er talið mikilvægt að hluti af eldstöðvakerfi Bárðarbungu, s.s. Vatnaöldur og Veiðivötn, verði höfð með innan þessara marka vegna samspils þessara tveggja ólíku eldstöðvakerfa. Þau endurspegla samspil rekbeltis og jaðarbeltis.

Aðildarríkjum UNESCO samningsins um verndun menningar- og náttúruminja heims ber að leggja fyrir Nefnd um arfleifð þjóða heims yfirlitsskrá yfir menningar- og náttúruminjar á yfirráðasvæði sínu sem viðkomandi ríki telur einstakar á heimsvísu. Tilnefningar á heimsminjaskrána eru gerðar á grundvelli þessara yfirlitsskráa. Er yfirlitsskráin forsenda þess að aðildarríki geti tilnefnt viðkomandi staði á heimsminjaskrá UNESCO.


Torfajökulssvæðið

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta